Húsleit hjá Samsung

Samsung
Samsung AFP

Húsleit var gerð á skrifstofum Samsung Electronics í Suður-Kóreu í dag en það er ríkissaksóknari sem fór fram á rannsóknina. Húsleitin er liður í rannsókn á forseta landsins, Park Geun-hye, og tengsla hennar við aðra valdamikla konu í Suður-Kóreu.

Saksóknarar rannsaka hvort eitthvað sé hæft í ásökunum um að Samsung hafi látið dóttur Choi Soon-sil, sem er náin vinkona forsetans, fá peninga. Choi er ásökuð um að hafa nýtt sér vinskapinn við Park til þess að fá fjármagn hjá fyrirtækjum til eigin nota. 

Samsung hefur staðfest við BBC að húsleit hafi verið gerð í höfuðstöðvum fyrirtækisins en tekið er fram að fyrirtækið muni ekki tjá sig frekar um rannsóknina.

Park hefur beðist afsökunar á tengslum sínum við Choi en háværar raddir segja að hún eigi að segja af sér embætti vegna málsins.

Ásakanir eru um að Samsung hafi látið fyrirtæki sem er í eigu Choi og dóttur hennar fá 2,8 milljónir evra til þess að greiða fyrir reiðnámskeið dótturinnar í Þýskalandi. Choi var handtekin 3. nóvember sökuð um spillingu og misnotkun á valdi.

Frétt BBC

Choi Soon-Sil er í haldi lögreglu.
Choi Soon-Sil er í haldi lögreglu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert