Með 4.600 í mánaðarlaun

Fólkið krefst þess að launin verði hækkuð í 12 þúsund …
Fólkið krefst þess að launin verði hækkuð í 12 þúsund krónur á mánuði AFP

Lágmarkslaun í fataverksmiðjum í Bangladess eru 38 Bandaríkjadalir á mánuði. Það svarar til tæplega 4.600 króna. Talið er að um 200 þúsund verkamenn hafi tekið þátt í mótmælum í dag þar sem launakjörum var mótmælt en starfsmennirnir fara fram á að lágmarkslaunin verði hækkuð í 100 dali á mánuði, sem svarar til 12 þúsund króna.

Er þetta þriðji dagurinn í röð sem fólk kemur saman og mótmælir bágum kjörum í fataverksmiðjum í úthverfi höfuðborgarinnar, Dhaka. Verksmiðjurnar hafa helst komist í fréttir alþjóðlega fjölmiðla fyrir skelfileg slys enda stenst húsakostur þeirra oftar en ekki brunakröfur.

Lögreglan segir að um 300 fataverksmiður í Gazipur iðnaðarhverfinu séu lokaðar í dag en þær framleiða einkum fatnað fyrir þekkt vestræn vörumerki, svo sem Walmart.

Segir lögregla ástandið mjög eldfimt þar sem verkamennirnir hafa ráðist til atlögu í þeim verksmiðjum sem ekki hefur verið lokað. Lögregla hefur skotið gúmmíkúlum og táragasi til þess að dreifa fólki. Verkafólkið hefur svarað með grjótkasti og þurftu nokkrir tugir að leita sér læknisaðstoðar.

Starfsmenn í fataverksmiðjum í Bangladess eru með ein lægstu laun sem borguð eru í heiminum í fataiðnaði. Vinnutíminn er oft langur, allt að 80 tímar á viku, og aðbúnaðurinn mjög lélegur. Enda slys mjög tíð og eldsvoðar í slíkum verksmiðjum. Í apríl sl. létust 1.100 starfsmenn í fataverksmiðju sem starfaði fyrir fjölmörg þekkt vörumerki en með því að láta sauma fyrir sig í Bangladess er hægt að bjóða lægra verð fyrir vöruna.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert