70 tískurisar heita umbótum í Bangladess

Verkakonur bíð tíðinda úr rústum fataverksmiðjunnar Rana Plaza þar sem …
Verkakonur bíð tíðinda úr rústum fataverksmiðjunnar Rana Plaza þar sem yfir 1.200 manns létu lífið. AFP

Alls 70 verslunarkeðjur hafa nú skrifað undir samning um aukið gæðaeftirlit með fataverksmiðjum í Bangladess til að auka öryggi starfsfólks þar, eftir hið hörmulega vinnuslys sem varð í Dakka í apríl, þegar yfir 1.200 manns létu lífið í verksmiðju sem hrundi.

Sænski fatarisinn H&M er leiðandi í áætluninni, enda er fyrirtækið stærsti einstaki viðskiptavinur bangladessks textíliðnaðar. Samkomulagið felur í sér að tískuvörufyrirtækin munu útvega nákvæmar upplýsingar um verksmiðjurnar þar sem fatnaðurinn er framleiddur og hver og ein þeirra verði heimsótt af eftirlitsmönnum innan 9 mánaða.

Þá munu verslunarkeðjurnar leggja fé í sjóð sem standa á undir nauðsynlegum framkvæmdum til að auka öryggi verksmiðjanna. Samningurinn er lagalega bindandi fyrir verslunarkeðjurnar, sem þurfa nú ekki aðeins að tryggja að verksmiðjurnar standist öryggiskröfur heldur einnig að standa undir kostnaði vegna þeirra.

Auk H&M hafa tískurisar á borð við Zara, Benetton, Metro, Carrefour, Marks and Spencer, Tesco, Espirit og Abercrombie & Fitch nú skrifað undir samninginn.

Jyrki Raina, framkvæmdastjóri bangladessku verkalýðssamtakanna IndustriALL, segir í samtali við BBC að samningurinn sé sögulegur og muni hafa mikil áhrif til þess að gera textíliðnaðinn í Bangladess sjálfbæran og öruggan.

Slysið í Dakka, þegar 8 hæða verksmiðja hrundi til grunna, var hið banvænasta í sögu textíliðnaðarins í Bangladess, en fyrir voru þó fjölmörg dæmi um mannskæða bruna og hrun í verksmiðjum landsins.

Grafið í rústum Rana Plaza verksmiðjunnar sem hrundi í Bangladess.
Grafið í rústum Rana Plaza verksmiðjunnar sem hrundi í Bangladess. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert