Enn finnast lík í verksmiðjunni

Frá vettvangi slyssins þar sem meira en 1.000 lík hafa …
Frá vettvangi slyssins þar sem meira en 1.000 lík hafa fundist. Talið er að talsvert fleiri eigi eftir að finnast. AFP

Meira en 1.000 lík hafa fundist í rústum verksmiðjubyggingarinnar Rana Plaza í borginni Dakka í Bangladess sem hrundi þann 24. apríl. Tugir líka fundust í einum stigaganga hússins í nótt og af ummerkjum mátti greina að fólkið hafði verið að reyna að flýja bygginguna.

Björgunarmenn segja ljóst að enn eigi eftir að grafa upp fjölda líka því megna nálykt leggi enn yfir staðinn. Mörg líkanna sem fundust í nótt voru lítið meira en beinagrindur, en 16 dagar eru nú liðnir frá slysinu. Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar um hversu margir voru við störf í húsinu sem hýsti fataverksmiðjur, en þeir voru a.m.k. 3.000 talsins.

Flest starfsfólkið fékk innan við 5.000 krónur í laun á mánuði fyrir vinnu sína sem fólst í framleiðslu fatnaðar fyrir m.a. Primark og Mango. Þeir sem lifðu slysið af eru nú án vinnu og segja bætur afar lágar og að þær dugi ekki einu sinni til þess að greiða lækniskostnað vegna áverka sem þeir hlutu í slysinu. Margir hlutu þar alvarleg meiðsli og misstu útlimi.

Unnið að hreinsunarstörfum við Rana Plaza.
Unnið að hreinsunarstörfum við Rana Plaza. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert