Yfir 800 látnir í Bangladess - verksmiðjum lokað

Saumakonur sem störfuðu í byggingunni sem hrundi stóðu í langri …
Saumakonur sem störfuðu í byggingunni sem hrundi stóðu í langri röð í dag og biðu þess að fá greidd út vangoldin laun. Mánaðarlaun þeirra eru innan við 5000 krónur. AFP

Nú er ljóst að yfir 800 manns létu lífið í Rana Plaza, 9 hæða verksmiðjuhúsnæði í Bangladess sem hrundi til grunna 24. apríl. Í dag fundust tugir líka í rústunum en auk þess hafa 13 látið lífið á sjúkrahúsum eftir að hafa verið bjargað. 18 fataverksmiðjum í landinu hefur verið lokað eftir stórslysið

Opinber tala látinna í slysinu er nú 803 en enn er unnið á vettvangi við að hreinsa upp rústirnar og leita að líkum. Erfiðlega hefur gengið að bera kennsl á hin látnu þar sem líkin rotna hratt vegna hita og raka.

Búist er við að fleiri lík finnist þar sem aðeins hefur verið farið í gegnum um 70% rústanna. Mörg hinna látnu fundust á stigagöngunum og virðast því hafa verið að reyna að flýja, en húsið hrundi of hratt til að þau kæmust út.

Óttast að vestræn fyrirtæki flytji sig annað

Yfir 3000 manns voru að störfum í byggingunni þegar hún hrundi. Eins og fram hefur komið voru þar saumaðar flíkur fyrir fjölmargar tískuvöruverslanir á Vesturlöndum.

Slysið er það versta sem orðið hefur í bangladesskum fataiðnaði, sem er sá þriðji umfangsmesti í heiminum. Það er þó ekkert einsdæmi, en virðist hugsanlega hafa verið kornið sem fyllti mælinn því stjórnvöld hafa heitið umbótum á starfsaðstæðum og öryggi verkafólks í landinu.

Fyrir nokkrum dögum gerði ríkisstjórn Bangladess samkomulag við Alþjóðlegu verkamannasamtökin (ILO) um að gera öryggismál að forgangsatriði. Er talið að stjórnvöld óttist að vestræn fyrirtæki flytji starfsemi sína annað vegna hins slæma umtals sem skapast hefur, en iðnaðurinn er hagkerfi Bangladess mjög mikilvægur.

Ný nefnd mun rannsaka 4.500 verksmiðjur

Iðnaðarráðherrann Abdul Latif Siddique tilkynnti í dag að 16 fataverksmiðjum í höfuðborginni Dakka hafi verið lokað og tveimur til viðbótar í borginni Chittagong. Búast megi við því að fleiri verksmiðjum sem ekki uppfylli öryggisstaðla verði lokað.

Siddique leiðir jafnframt nýja rannsóknarnefnd sem falið hefur verið að skoða hverja einustu af 4.500 fataverksmiðjum landsins með því sjónarmiði að koma í veg fyrir frekari harmleik.

„Við höfum séð að sumir sem fullyrða að þeir reki öruggustu verksmiðjur í Bangladess fylgja ekki að fullu byggingareglugerðum,“ sagði Siddique á blaðamannafundi í dag.

Líkum hefur verið raðað upp og breitt yfir, svo aðstandendur …
Líkum hefur verið raðað upp og breitt yfir, svo aðstandendur geti leitað ástvina. Erfitt hefur þó reynst að bera kennsl á þau enda rotna líkin hratt vegna hita og raka. AFP
Stórvirkar vinnuvélar hreinsa til í rústunum og inn á milli …
Stórvirkar vinnuvélar hreinsa til í rústunum og inn á milli leita björgunarmenn að líkum. 803 eru nú staðfestir látnir en talið er að fleiri muni finnast. AFP
Saumakonur sem störfuðu í byggingunni sem hrundi stóðu í langri …
Saumakonur sem störfuðu í byggingunni sem hrundi stóðu í langri röð í dag og biðu þess að fá greidd út vangoldin laun. Mánaðarlaun þeirra eru innan við 5000 krónur. AFP
Smíða hefur þurft hundruð líkkista sem staflað er upp á …
Smíða hefur þurft hundruð líkkista sem staflað er upp á skólalóð á meðan beðið er greftrunar. AFP
Björgunarmenn flytja lík á börum úr rústunum 7. maí 2013.
Björgunarmenn flytja lík á börum úr rústunum 7. maí 2013. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert