715 látnir í Dhaka

Páfinn talar um nútímaþrælkun í Bangladess en verkafólk starfar þar …
Páfinn talar um nútímaþrælkun í Bangladess en verkafólk starfar þar við skelfilegar aðstæður fyrir smánarlaun. AFP

Hundruð verkamanna lokuðu fyrir umferð um aðalhraðbrautina inn í höfuðborg Bangladess, Dhaka, í dag. Krefst fólkið, sem starfar í fataverksmiðjum, hærri launa en algengt er að mánaðarlaun séu rúmar 4.400 krónur.

Alls er vitað að 715 létust þegar níu hæða bygging sem hýsti fimm fataverksmiðjur hrundi til grunna þann 24. apríl sl. Alls voru rúmlega þrjú þúsund verkamenn við störf í húsinu er það hrundi en þar var meðal annars saumaður fatnaður fyrir vestrænar keðjur eins og Primark og Mango.

Þeir sem tóku þátt í mótmælunum í dag störfuðu allir í byggingunni sem hrundi og eru þeir án vinnu. Krefjast þeir þess að fá greidd laun frá eigendum verksmiðjanna sem og bóta vegna áverka sem þeir fengu þegar húsið hrundi.

Samtök fataframleiðenda í Bangladess segja að verkamennirnir, um 3.400 talsins, muni fá greitt í samræmi við lög í landinu. Það þýði að flestir fái greidd þriggja mánaða laun. Eins verði lækniskostnaður greiddur fyrir um eitt þúsund verkamenn sem slösuðust í húshruninu. Samtökin hafa heitið því að greiða fjölskyldum þeirra sem misstu ástvini í slysinu bætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert