Nýr verðlaunagripur kynntur

Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari og Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Félags íslenskra …
Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari og Bryndís Loftsdóttir framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda með Blæng, sem heldur öðrum væng sínum þétt að brjósti sér. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar Íslensku bókmenntaverðlaunin verða afhent í 35. sinn við hátíðlega afhöfn á Bessastöðum á miðvikudaginn kemur verður kynntur til sögunnar nýr verðlaunagripur. Í stað opinnar bókar á granítstöpli sem Jón Snorri Sigurðsson hannaði fá verðlaunahafar bronshrafninn Blæng sem Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari skapaði. Líkt og á eldri verðlaunagripnum verður nafn verðlaunahöfundar og titill verðlaunaverksins vel sýnilegt á nýja verðlaunagripnum.

Aðspurð um breytinguna segir Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bókaútgefenda, að hugmyndin að nýjum verðlaunagrip hafi kviknað hjá starfandi verðlaunanefnd félagsins og þá um leið að leita yrði til framúrskarandi listamanns með verkefnið. Í verðlaunanefndinni sitja Anna Margrét Marinósdóttir, Birgitta Hassell, Heiðar Ingi Svansson, Hólmfríður Matthíasdóttir og Pétur Már Ólafsson.

Blængur er stytting á orðinu blávængur, sem á vel við …
Blængur er stytting á orðinu blávængur, sem á vel við þar sem bronsafsteypan af höggmynd Matthíasar hefur blásvartan blæ. Frummyndin, sem er úr svörtum marmara, er um sjö kíló en afsteypan aðeins rúm tvö kíló. mbl.is/Árni Sæberg

„Eldri gripurinn hefur nú verið veittur 77 höfundum í 34 ár. Okkur þykir ákaflega vænt um þann grip enda mjög fallegur eins og sjá má á fjölmörgum myndum frá verðlaunaafhendingum liðinna ára. Ætli megi ekki segja að útgefendum hafi þótt saga eldri verðlaunagrips orðin passlega löng og tímabært að setja punktinn við hana,“ segir Bryndís og bendir á að útgefendur hafi almennt gott nef fyrir hæfilegri sagnalengd.

Kaflaskil í sögu verðlaunanna

„Þetta eru auðvitað ákveðin kaflaskil í sögu verðlaunanna, en þau hafa þó áður tekið breytingum, tilnefningar- og verðlaunamerkið var t.d. öðruvísi í upphafi, barna- og ungmennabókaflokkum var bætt við verðlaunin 2013, Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn féllu undir verndarvæng verðlaunanna í fyrra og svo hefur tilnefningahátíðin verið hér og þar í bænum, t.d. í Listasafni Íslands, á Kjarvalsstöðum og nú í Eddu, húsi íslenskunnar, svo eitthvað sé nefnt. Við höfum ekkert til sparað til þess að gera nýjan verðlaunagrip jafn glæsilegan og þann fyrri og erum mjög stolt af útkomunni og ánægð með alla þá hugsun og vinnu sem Matthías setti í Blæng,“ segir Bryndís. Rifjar hún upp að í könnun til félagsmanna um nýjan verðlaunagrip sem verðlaunanefndin lét gera í fyrra hafi nafn Matthíasar komið fram.

Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari með Blæng sem steyptur var í …
Matthías Rúnar Sigurðsson myndhöggvari með Blæng sem steyptur var í málmsteypunni Art-Odlew í Opole í Póllandi. mbl.is/Árni Sæberg

„Nefndin vildi að verðlaunagripurinn væri hvort heldur í senn glæsilegur við verðlaunaafhendinguna og félli vel að heimilum fólks. „Rætt var m.a. um að með vigt sinni og hæfilegri stærð gæti gripurinn nýst sem bókastoð eða setið á hvaða bókahillu sem væri og þær hugmyndir rímuðu vel við stíl og efnisval Matthíasar sem listamanns,“ segir Bryndís og bendir á að þeim höfundum fari fjölgandi sem hafi hlotið verðlaunin oftar en einu sinni.

Sveipaður mikilli dramatík

„Þeir höfundar sem hljóta verðlaunin einu sinni eignast Blæng. Þeir sem vinna þau tvisvar eignast Hugin og Munin og séu verðlaunin fleiri þá er viðkomandi höfundur kominn með hrafnaþing,“ segir Matthías kíminn, sem átti einmitt hugmyndina að nafninu Blængur. „Ég rakst á þetta nafn í bókinni Hrafninn eftir Sigurð Ægisson,“ segir Matthías og bendir á að blængur sé stytting á orðinu blávængur, sem eigi vel við þar sem hrafninn sé blásvartur, en bronsafsteypan af höggmynd Matthíasar mun einmitt hafa blásvartan blæ.

Aðspurður segist Matthías strax hafa verið mjög spenntur fyrir því að skapa nýja verðlaunagripinn. „Ég var beðinn að teikna þrjár mismunandi útfærslur á verðlaunagrip,“ segir Matthías og rifjar upp að þegar verðlaunanefndin fór yfir tillögurnar hafi verið mjög mjótt á mununum milli fugls og spendýrs. „Það vann hins vegar með hrafninum að hann er betur tengdur bókmenntum,“ segir Matthías, sem vinnur mikið með dýr í verkum sínum. „Mér finnst spennandi að skoða dýrið innra með okkur og hvernig mannlegir eiginleikar birtast í dýrum,“ segir Matthías og bendir á að Blængur haldi öðrum væng sínum þétt að brjósti sér.

Hrafninn er vel tengdur bókmenntum og hefur verið mörgum skáldum …
Hrafninn er vel tengdur bókmenntum og hefur verið mörgum skáldum yrkisefni. Sem dæmi orti Kristján frá Djúpalæk: Hvort ertu svartur fugl / eða fljúgandi myrkur? mbl.is/Árni Sæberg

„Það kallast skemmtilega á við höfundinn sem sýnir ekki öll spil sín, en hefur þó alla þræði í hendi sér,“ segir Bryndís og bendir á að í fyrrnefndri bók Sigurðar um hrafninn megi sjá hversu sterk tengsl hrafnsins séu við skáldskapinn og íslenska tungu. „Í bókinni má finna 108 íslensk alþýðuheiti eða staðbundin aukaheiti fuglsins, 47 málshætti þar sem hrafni bregður fyrir, 58 orðasambönd, sex nöfn á litum og 627 íslensk örnefni sem tengjast hrafninum. Þá er ótalinn allur sá kveðskapur íslenskra skálda sem hverfist um þennan eldklára, uppátækjasama og áhrifamikla fugl sem gjarnan er sveipaður mikilli dramatík, líkt og merkja má í lokalínum ljóðs Kristjáns frá Djúpalæk, „Talað við hrafn“ þar sem skáldið spyr: Hvort ert þú svartur fugl / eða fljúgandi myrkur?“ segir Bryndís og bendir á að mannsnafnið Hrafn eða Rafn hafi verið með Íslendingum frá Landnámu. „Svo var þetta líka fuglinn sem lóðsaði nafngjafa Íslands, Flóka Vilgerðarson eða Hrafna-Flóka, hingað til lands.“

Lengra viðtal við Matthías og Bryndísi má lesa í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu að gera nokkuð það sem getur valdið misskilningi um fyrirætlanir þínar. Aðeins vel upplýstur maður getur innt þau störf af hendi, sem þér eru falin.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley og Lucinda Riely
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu að gera nokkuð það sem getur valdið misskilningi um fyrirætlanir þínar. Aðeins vel upplýstur maður getur innt þau störf af hendi, sem þér eru falin.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley og Lucinda Riely
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg