Pílagrímsför Víkings með Bach

„Ég held að ég sé að sigla inn í Bach-tímabil,“ …
„Ég held að ég sé að sigla inn í Bach-tímabil,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanisti. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Fyrir mér er þetta verk eins og bréf til framtíðarinnar, enda var það svo langt ofan við það sem flestir gátu skilið og náð utan um á ritunartímanum,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari um Goldberg-tilbrigðin eftir Johann Sebastian Bach sem hann leikur á plötu sem Deutsche Grammophon (DG) gefur út 6. október. Aðeins tveimur dögum seinna tekur Víkingur á móti Opus klassik-verðlaununum sem einleikari ársins fyrir fimmtu plötu sína hjá DG, From Afar, við hátíðlega athöfn í Berlín.

Þó formlegi útgáfudagurinn á nýju plötunni sé ekki fyrr en eftir tæpan mánuð er Víkingur byrjaður að kynna hana með tónleikum. Þegar viðtalið við Víking fór fram um síðustu mánaðamót var hann þegar búinn að halda átta Goldberg-tónleika, sem er um 1/11 af heildartónleikaferðinni sem nær til næstum allra höfuðborga í hinum vestræna heimi og lýkur í Elbfílharmóníunni í Hamborg í júní á næsta ári. „Ég miðaði allt tónleikaferðalagið mitt við að ég yrði á Íslandi miðvikudagskvöldið 14. febrúar 2024,“ segir Víkingur, en þann dag fagnar hann 40 ára afmæli sínu með tónleikum í Eldborg Hörpu.

„Það tekur svo langan tíma að þróa sína nálgun á …
„Það tekur svo langan tíma að þróa sína nálgun á Bach,“ segir Víkingur Heiðar Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvenjulegt tónleikaár

„Það eru fyrstu einleikstónleikar mínir á Íslandi í yfir tvö ár, en ég mun alls halda 88 tónleika til að fylgja plötunni úr hlaði,“ segir Víkingur og tekur fram að svo skemmtilega vilji til að á nútímaflygli séu einmitt 88 nótur. „Þetta verður mjög óvenjulegt tónleikaár hjá mér því venjulega leik ég einleikstónleika í bland við tónleika þar sem ég spila konserta með sinfóníuhljómsveitum,“ segir Víkingur og bendir á að það sé raunar sjaldgæft að túrað sé jafnvíða og hann ætli sér að gera með aðeins eitt klassískt tónverk – en raunar eru Goldberg-tilbrigðin ekkert venjulegt verk, heldur „stórkostlegasta hljómborðsverk sögunnar sem ekkert annað einleiksverk jafnast á við,“ eins og Víkingur orðar það og tekur fram að verkið sé eins konar uppflettirit um hvernig megi láta sig dreyma á hljómborðshljóðfæri.

„Síðasta tónleikaárið mitt var stóra hljómsveitarárið mitt,“ segir Víkingur sem spilaði m.a. með Berlínarfílharmóníunni, Concertgebouw-hljómsveitinni, Cleveland-hljómsveitinni og fílharmóníusveitunum í New York og London. „Mig langaði til að eiga slíkt ár áður en ég færi í mína pílagrímsför með Bach að klífa Goldberg-tilbrigðin, m.a. í löndum og heimsálfum sem ég hef haft lítinn tíma til að spila í áður, eins og Ástralíu, Japan, Suður-Kóreu og Suður-Ameríku,“ segir Víkingur og tekur fram að í hans huga séu Goldberg-tilbrigðin eina verkið sem hann gæti spilað 88 sinnum um allan heim „án þess að verða sturlaður,“ enda felist heilmikil áskorun í verkinu sjálfu. „Markmið mitt er að vera nógu víðsýnn og djúphugull í þessu verki til þess að ég þurfi ekki endurtaka það 88 sinnum heldur takist mér að endurskapa það að einhverju leyti í nýrri mynd á hverju kvöldi.“

Víkingu Heiðar Ólafsson leikur Goldberg-tilbrigðin í Eldborg Hörpu 14. febrúar …
Víkingu Heiðar Ólafsson leikur Goldberg-tilbrigðin í Eldborg Hörpu 14. febrúar 2024, daginn sem hann verður fertugur. Um verður að ræða fyrstu einleikstónleika hans á Íslandi í tvö ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Erfiðast að finna frelsið

Goldberg-tilbrigðin er önnur platan þar sem Víkingur fæst við Bach, en fyrri platan kom út hjá DG 2018. „Á fyrri plötunni langaði mig að skoða Bach sem meistara hins knappa forms. Hann gat rissað upp ótrúleg portrett á örfáum mínútum með örfáum nótum, sambærilegt við það sem Picasso gat gert með nokkrum penslastrokum. Mig langaði því til að skoða Bach ekki í monumentalismanum, sem Goldberg-tilbrigðin eru, heldur sem meistara hins knappa forms,“ segir Víkingur og bendir á að sú vinna hafi tvímælalaust hjálpað honum þegar hann kom aftur að Goldberg-tilbrigðunum.

„Fyrri platan skýrði sýn mína á Goldberg-tilbrigðin. Hún frelsaði mig líka. Því það eru alltaf allir að segja manni hvernig Bach eigi að vera, hvort heldur það snýr að hljóðfæravalinu, pedalvinnunni eða tempóinu. Það eru allir með sín svör og tilbúnir að útskýra fyrir þér hvernig Bach eigi að vera,“ segir Víkingur og rifjar upp að á fyrri Bach-plötu sinni hafi hann meðvitað unnið með ólíka Bach-stíla, ekki síst til að losa sig „undan dogmunni um hvað mætti og mætti ekki gera þegar kemur að Bach og finna minn eigin Bach. Það frelsi tók ég síðan með mér yfir í Goldberg-tilbrigðin,“ segir Víkingur og áréttar að hann hafi orðið að koma með næstu Bach-plötu sína núna.

Hvers vegna?

„Bæði vegna þess að ég hef fengið ótal óskir um slíkt en ekki síður af því að ég fann mig knúinn til þess tónlistarlega,“ segir Víkingur og fer ekki dult með það að það hafi verið honum hjartans mál að fá tækifæri til að takast á við Goldberg-tilbrigðin í tengslum við 40 ára afmæli sitt. „Mér finnst að með þessari upptöku og tónleikaferðalagi sé ég að loka ákveðnum kafla í lífi mínu og hefja nýjan.“

Hvað mun einkenna næsta kaflann?

„Ég held að ég sé að sigla inn í Bach-tímabil. Ég er ekki þar með endilega að segja að næsta plata verði líka helguð Bach, en ég finn svo mikla ást á þessu viðfangsefni og mér finnst svo margt ósagt í verkum hans. Bach er, að mínu mati, mesti listamaður sögunnar. Einhverra hluta vegna eru furðu margir af fremstu píanistum heims sem fást lítið sem ekkert við hann,“ segir Víkingur og tekur fram að erfiðast sé að finna frelsið í höfundarverki Bachs.

Góð list sundrar oft

„Það tekur svo langan tíma að þróa sína nálgun á Bach. Maður þarf svolítið að frelsast undan hugmyndinni um Bach til að geta spilað hann og mér finnst ég vera að ná því betur og betur. Í dag er ég í raun hvergi frjálsari en í Bach. Ég veit að ég spila hann á afgerandi hátt og þess vegna geri ég enga kröfu um að fólki líki það sem ég er að gera. Ég veit að fólk hefur sterkar skoðanir á Bach og það þarf ákveðinn þroska til að sætta sig við það að maður getur aldrei gert öllum til hæfis. Allir mínar uppáhaldsflytjendur, þeirra á meðal Glenn Gould og Horowitz og Rakhmanínov, hafa gert afgerandi verk sem hafa skipt fólki í fylkingar. Góð list sameinar ekki alltaf, hún sundrar oft.“

Lengri gerð viðtalsins við Víking Heiðar birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 14. september. Þar ræddi hann ítarlegar um Goldberg-tilbrigðin og túlkun sína á þeim og um þau spennandi verkefni sem bíða hans þegar Bach-tónleikaferðalaginu lýkur. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu að gera nokkuð það sem getur valdið misskilningi um fyrirætlanir þínar. Aðeins vel upplýstur maður getur innt þau störf af hendi, sem þér eru falin.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley og Lucinda Riely
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Varastu að gera nokkuð það sem getur valdið misskilningi um fyrirætlanir þínar. Aðeins vel upplýstur maður getur innt þau störf af hendi, sem þér eru falin.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lucinda Riley og Lucinda Riely
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lotta Luxenburg