Ungmenni í vanda

Kæra Jelena fjallar um fjögur ungmenni sem kvöld eitt heimsækja …
Kæra Jelena fjallar um fjögur ungmenni sem kvöld eitt heimsækja Jelenu, umsjónarkennara sinn, undir því yfirskini að samgleðjast henni á afmælisdegi hennar. Fljótlega kemur í ljós að tilgangurinn er allt annar. Ungmennin eru komin til að fá hjá henni lykil að skáp sem geymir prófaúrlausnir dagsins, því þau hyggjast skipta vanbúnum svörum sínum út með réttum lausnum. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Rússneska leikskáldið Ljúdmíla Razumovskaja skrifaði leikritið Kæra Jelena að beiðni menntamálayfirvalda árið 1980. Í beiðninni fólst að hún ætti að skrifa um ungmenni í vanda. Razumovskaja valdi að skrifa um fjögur ungmenni sem kvöld eitt heimsækja Jelenu, umsjónarkennara sinn, undir því yfirskini að samgleðjast henni á afmælisdegi hennar. Fljótlega kemur í ljós að tilgangurinn er allt annar. Ungmennin eru komin til að fá hjá henni lykil að skáp sem geymir prófaúrlausnir dagsins, því þau hyggjast skipta vanbúnum svörum sínum út með réttum lausnum. Þau sjá svindlið sem einu leiðina til að tryggja sér betra brautargengi í harðri lífsbaráttunni. Nemendurnir reyna fyrst að kaupa kennara sinn með gjöfum, því næst að höfða til samkenndar hennar, en þegar það bregst líka tekur ofbeldið við með þeim afleiðingum að nær engin verða söm eftir,“ skrifar Silja Björk Huldudóttir í inngangi leikdóms um Kæru Jelenu í uppfærslu Borgarleikhússins sem birtist í Morgunblaðinu um helgina. 

Í dómnum er rifjað upp að leikritið hafi verið frumsýnt í Tallinn í Eistlandi 1981 og í framhaldinu sett upp í Sankti Pétursborg 1982 og víðar í Sovétríkjunum við gríðarlegar vinsældir. „Ári síðar ákváðu stjórnvöld að banna verkið þar sem það þótti dulin gagnrýni á ríkjandi stjórnskipulag, en flestöll leikrit Razumovskaju munu eiga þessa gagnrýni sameiginlega. Banninu á Kæru Jelenu var ekki aflétt í heimalandi höfundar fyrr en 1987 með umbótastefnu Míkhaíls Gorbatsjov sem nefnd er perestrojka.

Kæra Jelena, sem rataði hingað á svið 1991 í eftirminnilegri uppfærslu, mun vera vinsælasta og mest leikna leikrit Razumovskaju. Vinsældir verksins koma ekki á óvart því það býr yfir sprengikrafti, mögnuðum átökum kynslóða um gildismat, hugrekki, hugsjónir og siðferði sem snertir djúpt við áhorfendum. Í uppfærslu Borgarleikhússins í leikstjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur er farin sú leið að færa verkið úr ritunartíma sínum og stað til óskilgreindra Vesturlanda nútímans með það að markmiði að færa verkið nær íslenskum áhorfendum. Með þessari færslu tapast hins vegar ákveðinn kjarni verksins. Í stað þess að ungmennin séu að ráðast að hugmyndafræði kennara síns, sem trúir því sjálf að dygðugt líferni tryggi farsæld í þjóðfélagi sem markað er af kúgun og skorti og ungmennin eru afsprengi af, virka þau fremur eins og heimtufrekir krakkar á tímum taumlausrar neysluhyggju. Dæmi um þetta er þegar Lilja ber saman raunveruleikann sem hún þekkir, þreyttar konur sem búa við skort og ferðast þess vegna með strætó, og konurnar sem hana dreymir um að tilheyra sem ferðast um í silfurlitum jeppum og klæðast pelsum og gulli. Á tímum loftslagsbreytinga hafa samgöngumátarnir tveir sem hún nefnir hins vegar allt aðra sögn en þeir höfðu í Sovétríkjunum sálugu.

Litla sviðið hefur á umliðnum misserum reynst afar gjöfult leikrými, enda býður það upp á þann lúxus að breyta megi uppstillingunni með margvíslegum hætti til að þjóna efniviðnum sem best. Kæra Jelena gerist í einu rými nánast í rauntíma og því var vel til fundið að sleppa hléinu. Leikstjórinn velur að láta áhorfendur sitja hringinn í kringum sviðið sem staðsett er í miðjunni, þó leikurinn berist stöku sinnum aftur fyrir áhorfendur. Þau uppbrot virkuðu hins vegar ekki vel innan hins natúralíska ramma verksins. Þannig var beinlínis sérkennilegt að ungmennin skyldu gagngert skilja eitt herbergi eftir þegar þeir umturna lítilli íbúð Jelenu í leit að lyklinum mikilvæga. Jafnframt var óljóst hvað hindraði Jelenu í því að flýja af vettvangi þegar útgönguleiðin var augljóslega greið.

Í leikskránni kemur fram að markmiðið með því að raða áhorfendum hringinn í kringum leikrýmið hafi annars vegar verið að skapa nánd og tilfinningu fyrir innilokun og hins vegar að vísa í rómverskt hringleikahús þar sem áhorfendur verða nánast meðsekir þegar þeir verða vitni að hrikalegri atburðarásinni. Það sem vinnst með nándinni tapast aftur á móti í mjög erfiðum sjónlínum. Sú ákvörðun að staðsetja leikinn í miðjunni kallar á að leikarar séu á sífelldri hreyfingu til þess að áhorfendur missi ekki af andlitstjáningu þeirra og samleik, ekki síst í verki sem byggist alfarið á dýnamíkinni og valdasamspili persónanna. Í uppfærslu Borgarleikhússins eru heilu og hálfu senurnar hins vegar leiknar í mikilli kyrrstöðu sem þýðir að áhorfendur sjá iðulega aðeins framan í hluta leikaranna og baksvip hinna. Fyrir vikið glatast mikilvægur samleikur og þar með skilningur áhorfenda á því sem fram fer.

„Eitt lykilþema leikritsins er vilja- og siðferðisstyrkur persónanna. Það hefði …
„Eitt lykilþema leikritsins er vilja- og siðferðisstyrkur persónanna. Það hefði vafalítið þjónað verkinu betur ef áhorfendur hefðu fyrr í uppfærslunni getað trúað því að ungmennin væru raunverulega fær um að brjóta mótstöðu Jelenu á bak aftur, því þá hefði styrkur hennar komið meira á óvart sem aftur hefði skapað dýnamískari spennu við endalokin,“ segir um Kæru Jelenu. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Leikmynd og búningar Filippíu I. Elísdóttur þjóna vel þeirri tilfærslu sem orðið hefur í tíma og rúmi. Íbúð Jelenu var látlaus, en smekkleg. Búningar þjónuðu flestum persónum vel, hvort heldur voru felulitir Jelenu eða mjallhvítir skór Valda sem undirstrikuðu vel ríkidæmi hans. Eina undantekningin birtist í klæðnaði Lilju sem stakk nokkuð í stúf. Þröngt leikrýmið minnkaði til muna eftir húsleit ungmennanna og greinilegt var að leikarar þurftu að gæta fóta sinna til að hrasa ekki um allt draslið á gólfinu.

Halldóra Geirharðsdóttir fer með hlutverk Jelenu, en í hlutverkum ungmennanna eru Aron Már Ólafsson, Haraldur Ari Stefánsson, Sigurður Þór Óskarsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. Sigurður Þór fór á kostum sem einfeldningurinn Viktor sem vill ekki gera flugu mein, en lætur samt svo auðveldlega spila með sig og mun án vafa drekka sig frá öllu áður en langt um líður. Frá höfundarins hendi er augljóst að Viktori er ætlað það hlutverk að létta stemninguna á lykilstundum og gerði Sigurður Þór það með miklum ágætum.

Haraldur Ari var sannfærandi í hlutverki Péturs sem reynir eftir fremsta megni að bera sig mannalega og virðist næstum skilyrðislaust tilbúinn að hlýða skipunum þeirra sem taka sér valdið. Áhrifaríkt var að fylgjast með angist hans þegar honum verður ljóst að hann neyðist til að velja milli þess að svíkja stúlkuna sem hann elskar eða vininn sem hann hefur lagt allt sitt traust á. Þuríður Blær sem fer með hlutverk Lilju hafði að vanda afar góða nærveru. Henni tókst vel að sveiflast milli kaldra röksemda sinna um hvað hún þyrfti að gera til að komast af í þjóðfélagi sem skeytir lítt um þá sem minna mega sín og þeirrar örvæntingar sem sú árás sem hún verður fyrir í íbúðinni framkallar.

Aron Már fer með hlutverk Valda sem hefur sérstöðu í hópi ungmennanna. Ólíkt hinum þremur þarf hann ekki að svindla á prófinu þar sem hann er í góðum málum og faðir hans þegar búinn að tryggja honum háskólavist erlendis. Til að byrja með segist hann aðeins taka þátt í heimsókninni vegna samúðar með vinum sínum sem séu hæfileikafólk sem ella verði undir í lífinu. Fljótlega kemur hins vegar í ljós að hann sér heimsóknina sem kærkomna prófraun á eigin viljastyrk og stjórnkænsku. „Styrkur“ Valda í baráttu hans við Jelenu felst í því að honum er ekkert heilagt og hann er reiðubúinn að beita öllum meðölum siðleysingjans, hvort heldur er að ljúga í formi smjaðurs eða ráðskast með aðra í eigin þágu í krafti óbilandi sjálfstrausts. Skortur siðleysingjans á samvisku og samkennd með öðrum gerir þá einmitt að sérlega hættulegum andstæðingum. Aron Már nýtti vel sakleysislegt yfirbragð sitt til að spila með aðrar persónur verksins. Þröngt sviðsrýmið gerði honum hins vegar nokkuð erfitt fyrir, enda ótrúverðugt að hægt væri að hvíslast á í svo miklu návígi við Jelenu án þess að hún tæki eftir því og brygðist við. Sú ákvörðun að láta Valda verða vonsvikinn með vini sína og nánast reiðan undir lok verks virkaði sérkennilega í ljósi þess að siðleysingjanum tókst ætlunarverk sitt fullkomlega og var í raun aldrei í neinum vafa um það hversu miklir aumingjar „vinir“ hans væru.

„Titilpersóna leikritsins er sú persóna sem fer í lengsta ferðalagið …
„Titilpersóna leikritsins er sú persóna sem fer í lengsta ferðalagið tilfinningalega séð. Hún fer frá því að vera undrandi og glöð yfir í algjört vonleysi og uppgjöf með viðkomu í reiði, vonbrigðum, hræðslu og vantrú. Halldóra náði mjög góðum tökum á reiði Jelenu og fordæmingu á framkomu ungmennanna fjögurra,“ segir í leikdómi um Kæru Jelenu. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Titilpersóna leikritsins er sú persóna sem fer í lengsta ferðalagið tilfinningalega séð. Hún fer frá því að vera undrandi og glöð yfir í algjört vonleysi og uppgjöf með viðkomu í reiði, vonbrigðum, hræðslu og vantrú. Halldóra náði mjög góðum tökum á reiði Jelenu og fordæmingu á framkomu ungmennanna fjögurra. Rýnir prísar sig sæla að hafa setið réttum megin í salnum til að sjá framan í Halldóru þegar Jelena endanlega gerir sér grein fyrir að lífsstarf hennar hefur mistekist, því viðbrögð hennar voru óhuggulega áhrifarík. Hins vegar hefði þurft að huga betur að valdasamspili Jelenu við nemendur sína, ekki síst Valda. Í túlkun Halldóru var Jelena frá fyrstu stundu alltof vör um sig gagnvart nemendunum og hafnandi á góðvild þeirra líkt og hún grunaði þau um græsku, sem aftur grefur undan hvörfunum sem í vændum eru. Til að skapa sem mesta spennu þurfa áhorfendur helst að vera búnir að sjá í gegnum ungmennin áður en kennarinn gerir það.

Eitt lykilþema leikritsins er vilja- og siðferðisstyrkur persónanna. Það hefði vafalítið þjónað verkinu betur ef áhorfendur hefðu fyrr í uppfærslunni getað trúað því að ungmennin væru raunverulega fær um að brjóta mótstöðu Jelenu á bak aftur, því þá hefði styrkur hennar komið meira á óvart sem aftur hefði skapað dýnamískari spennu við endalokin. Sú ákvörðun að bæta nýju niðurlagi við enda verksins tók um of fókusinn frá þöglum örlögum titilpersónunnar.

Þrátt fyrir framangreinda annmarka er uppfærsla Borgarleikhússins á Kæru Jelenuáhugaverð og vel þess virði að sjá. Hér er á ferðinni einstaklega gott leikrit sem rannsakar lykilspurningar á borð við hvort og hvenær við höfum efni á góðvild og hvort manneskjan geti lifað af sé hún rænd hugsjónum sínum,“ segir í niðurlagi leikdómsins sem birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 27. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu stuðnings við fyrirætlanir þínar áður en þú leggur af stað. Gakktu á undan með góðu fordæmi og gefðu þeim sem ekki virðast eiga það skilið annan sjens.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Lucinda Riely og Lucinda Riley
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lilja Sigurðardóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu stuðnings við fyrirætlanir þínar áður en þú leggur af stað. Gakktu á undan með góðu fordæmi og gefðu þeim sem ekki virðast eiga það skilið annan sjens.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Steindór Ívarsson
2
Lucinda Riely og Lucinda Riley
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Lilja Sigurðardóttir
5
Birgitta H. Halldórsdóttir