Hvers vegna skiptir félagsfærni máli í þroska barna?

Pexels/Ketut Subiyanto

Félagsfærni er lykilatriði í þroska bara. Góð félagsfærni gerir börnum kleift að eiga jákvæð samskipti við aðra og miðla þörfum sínum, löngunum og tilfinningum á áhrifaríkan hátt. Félagsfærni heldur áfram að þróast með aldrinum og hægt er að læra hana og styrkja með æfingunni. Góð félagsfærni gefur börnum margvíslegan ávinning, meðal annars betri árangri í skóla og betri samskipti við jafnaldra. Einnig getur það aukið kvíða barna ef þau búa ekki yfir góðri félagsfærni.

Hér eru nokkur ráð til að kenna barninu þínu mikilvægustu þætti félagsfærni.

Að deila

Vilji til að deila snarli eða leikföngum getur hjálpað börnum að eignast og halda vinum. Börn á aldrinum 3 til 6 ára eiga þó oft erfitt með að deila ef þau skynja að það muni kosta þau eitthvað. Sem dæmi má taka að barn gæti verið tregt til þess að deila helmingnum af kökusneið með vini vegna þess að það þýðir að þau munu hafa minna til njóta sjálf. Sömu börn gætu þó auðveldlega deilt leikfangi sem þau hafa ekki lengur áhuga á.

Við 7 og 8 ára aldurinn verður börnum meira umhugað um sanngirni og verða tilbúnari til að deila. Börnum sem líður vel í eigin skinni eru oft líklegri til að deila. Að deila getur líka hjálpað börnum að líða vel með sjálfan sig. Það getur því aukið sjálfsálit barna að kenna þeim að deila.

Það er þó ekki góð hugmynd að neyða barnið til að deila. Í staðinn getur þú bent á tækifærin til að deila þegar þau gefast. Hrósaðu barninu þínu þegar það deilir með öðrum. Biddu það svo um að taka eftir því hvernig öðrum líður þegar barnið hefur deilt með þeim.

Samvinna

Börn sem eru góð í því að vinna saman með öðrum bera virðingu fyrir því þegar aðrir leggja fram beiðnir. Þau leggja líka sitt af mörkum, taka þátt og hjálpa til. Góð samvinnuhæfni er nauðsynleg til að ná árangri innan samfélagsins. Barnið þitt mun þurfa að vinna með bekkjarfélögum á leikvellinum sem og í kennslustofunni.

Um 3 og hálfs árs aldurinn geta börn byrjað að vinna með jafnöldrum sínum að sameiginlegu markmiði. Fyrir börn getur samvinna falið í sér að byggja saman leikfangaturn til að spila leik sem krefst þess að allir taki þátt. Samvinna er einnig frábært tækifæri fyrir börn til þess að læra meira um sig sjálf og hvernig þau virka best í hópi.

Ræddu við barnið þitt um mikilvægi samvinnu og hvernig athafnir og störf eru betri þegar allir leggja sig fram. Skapaðu tækifæri fyrir alla fjölskylduna til að vinna saman, eins og að undirbúa máltíðir saman eða sinna húsverkum.

Hlustun

Að hlusta snýst ekki bara um það að hafa hljóð, heldur þýðir það líka að meðtaka það sem einhver annar segir. Hlustun er mikilvægur þáttur í heilbrigðum samskiptum. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst mikið af skólagöngu barns um það að hlusta á það sem kennarinn hefur að segja. Að meðtaka efnið, skrifa niður minnispunkta og hugsa um það sem sagt er verður enn mikilvægara eftir því sem nám barnsins þróast. Ef þú gefur barninu næg tækifæri til að æfa hlustun styrkist þessi færni.

Hlustun er einnig mikilvægur hluti af því að þróa með barninu samkennd. Barn getur ekki sýnt öðrum samkennd eða veitt öðrum stuðning án þess að hlusta fyrir og skilja það sem hinn aðilinn segir. Það er nauðsynlegt að þegar barnið þitt vex úr grasi viti það hvernig það á að hlusta á yfirmanninn, maka sinn og vini. Þessi kunnátta er þó dálítið á undanhaldi nú á tímum stafrænnar tækni. Leggðu áherslu á við börnin þín frá unga aldri að snjallsímar og önnur snjalltæki ættu ekki að vera í notkun þegar samræður eiga sér stað.

Þegar þú lest fyrir barnið þitt skaltu stöðva reglulega og biðja barnið um að segja þér frá því sem þú varst að lesa. Hjálpaðu þeim að fylla í eyðurnar sem koma upp og hvettu þau til að halda áfram að hlusta þegar þú heldur áfram að lesa. Ekki leyfa barninu að trufla aðra þegar þeir tala.

Að fara eftir leiðbeiningum

Áður en þú getur búist við því að barnið þitt verði gott í að fylgja leiðbeiningum er mikilvægt að þú sem foreldri lærir að gefa leiðbeiningar. Hér eru nokkur ráð til gefa góðar leiðbeiningar og forðast algeng mistök.

  • Gefðu ungu barni leiðbeiningar um eitt í einu. Í stað þess að biðja barnið um að ganga frá skónum sínum, leggja frá sér bækurnar og þvo hendurnar allt í einu, skaltu bíða þangað til barnið hefur tekið upp skóna áður en þú gefur næstu leiðbeiningar.
  • Forðastu að orða leiðbeiningar þínar sem spurningu. Ef þú spyrð barnið hvort það vilji vinsamlegast taka upp leikföngin sín gefur það til kynna að barnið hafi möguleika á því að segja nei. Þegar þú hefur gefið barninu leiðbeiningar skaltu biðja það um að endurtaka það sem þú sagðir. Spyrðu barnið hvað það eigi að gera núna og bíddu eftir að það útskýri hvað það heyrði þig segja.
  • Mundu að mistök eru eðlileg. Það er eðlilegt að ung börn verði annars hugar, hegði sér hvatvíslega eða gleymi því sem þau eigi að geta. Líttu á hver mistök sem tækifæri til að hjálpa þeim að skerpa á færni sinni.

Hrósaðu barninu þínu fyrir að fylgja eftir leiðbeiningunum þínum. Sem dæmi getur þú þakkað barninu fyrir að hafa slökkt á sjónvarpinu um leið og þú baðst barnið um það. Ef barnið þitt á erfitt með að fylgja leiðbeiningum skaltu gefa því tækifæri á að æfa sig með því að gefa því einfaldar skipanir. Þú getur til dæmis beðið barnið um að vinsamlegast rétta þér bók og hrósað því svo strax í kjölfarið fyrir að hafa fylgt því eftir.

Að virða persónulegt rými

Búðu til heimilisreglur sem hvetja barnið til að virða persónulegt rými annarra. Að banka þegar dyr eru lokaðar og að halda höndunum fyrir sjálfan þig eru nokkur dæmi. Þegar barnið verður eldra getur þú talað við það um mörk, bæði að setja þau sjálf og virða mörk annarra.

Kenndu barni þínu að standa í armslengd frá fólki þegar það er að tala. Þegar barnið stendur í röð skaltu tala um hversu nálægt það megi vera manneskjunni á undan og minntu það á að halda höndunum sínum fyrir sig. Þú gætir leikið ýmsar aðstæður til að hjálpa barninu að æfa viðeigandi persónulegt rými.

Að ná augnsambandi

Sum börn eiga erfitt með að horfa á manneskjuna sem þau eru að tala við. Hvort sem barnið þitt er feimið og kýs að stara niður í gólfið eða einfaldlega lítur ekki upp þegar það er upptekið við annað, skaltu leggja áherslu á hve mikilvægt gott augnsamband er. Ef barnið þitt á í erfiðleikum með augnsamband er gott að koma með blíðar áminningar. Þú getur til dæmis spurt barnið hvert augun ættu að fara þegar einhver talar við það. Þú vilt samt ekki valda feimnu barni frekari kvíða. Hrósaðu líka barninu þínu þegar það man eftir því að horfa í augun á fólki þegar talað er við það.

Ein leið til að æfa augnsamband er að sýna barninu hvernig það er þegar einhver horfir ekki í augun á því þegar það talar. Biddu barnið um að deila sögu á meðan þú starir á jörðina, lokar augunum eða horfir bara á eitthvað allt annað en barnið. Biddu barnið um að deila annarri sögu með þér og horfðu að þessu sinni í augun á barninu þínu. Ræðið svo saman um hvorar aðstæðurnar létu barninu þínu líða betur.

Að sýna mannasiði

Að þakka fyrir og nota góða borðsiði getur hjálpað barninu þínu að ná athygli á réttum forsendum. Kennarar, aðrir foreldrar og aðrir krakkar munu bera virðingu fyrir vel siðuðu barni. Oft getur mikil barátta þó fylgt því að kenna börnum mannasiði. Það er hins vegar mikilvægt fyrir börn að vita hvernig á að sýna kurteisi og virðingu, sérstaklega þegar þau eru á heimilum annarra eða í skólanum.

Vertu barninu þínu góð fyrirmynd þegar kemur að mannasiðum. Segðu reglulega „nei, takk“ og „já, takk“ við barnið þitt. Vertu viss um að nota mannasiði í samskiptum við annað fólk. Minntu barnið þitt reglulega á góða mannasiði og hrósaðu barninu þegar þú tekur eftir því að það sýnir kurteisi.

Verywell Family 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert