Hugmyndir að innanhússhreyfingu fyrir smábörn

Pexels/Yan Krukau

Allir foreldrar vita að smábörn eru orkumikil og oft krefst það mikillar kænsku að hafa ofan af fyrir þeim. Nú þegar margir leikskólar og dagforeldrar eru farnir í sumarfrí getur verið að einhverja foreldra vanti hugmyndir að því hvað þeir geti gert með börnunum sínum.

Hér eru nokkrar hugmyndir að innanhússhreyfingu fyrir smábörn af vefnum Verywell Family, svona þegar veðrið býður ekki upp á mikla útiveru.

Hindrunarbraut

Hér er um að gera að vera skapandi og nota allt það sem þú finnur á heimilinu til að byggja hindrunarbraut sem hentar börnum á þessum aldri. Til dæmis gæti barnið byrjað á því að klifra yfir stóran kodda, fylgt því eftir með að skríða í gegnum pappakassa, farið svo hring í kringum stól og að lokum hlaupið í gegnum dyragætt.

Hægt er að bæta við skemmtanagildið með því að hefja hindrunarhlaupið með því að blása í flautu. Jafnvel er hægt að nota kreppappírsborða fyrir börnin til að rjúfa við endamarkið.

Feluleikur

Sum smábörn gætu orðið hrædd við að fela sig eða hrædd um að geta ekki fundið þig ef þú felur þig. Farðu því varlega ef leika á þennan leik. Ef þú felur þig er gott að byrja á augljósum svæðum og með fótlegg eða handlegg sjáanlegan, þangað til barnið verður nógu öruggt. Einnig gætir þú gefið frá þér hljóð, eins og hósta, til að gefa þeim vísbendingu um hvar þú ert.

Ef barnið vill fela sig er mikilvægt að taka sér tíma í að útskýra fyrir barninu hvert má ekki fara. Gott er að takmarka felustaði við eitt til tvö herbergi, svo þú vitir alltaf hvar barnið er.

Dans

Dans er frábær leið til að efla hreyfingu hjá barninu. Flest smábörn hafa gaman af tónlist og hreyfa sig gjarnan í takt við tónlistina. Kveiktu á tónlist á meðan þið útbúið hádegismatinn eða til að hvetja barnið þitt til að tína upp leikföngin sín.

Einnig getur þú skipulagt smá dansveislu fyrir barnið þitt. Veldu nokkur lög til að spila og endilega dansaðu með. Lykillinn er að fá barnið til að hreyfa sig við tónlistina og gera hana skemmtilega.

Teygjuæfingar

Teygjur er frábær leið til að fá barnið þitt til að hreyfa sig. Þú getur kennt barninu þínu að teygja á hverjum morgni eða gert teygjuæfingar eftir að hafa setið lengi kyrr, eins og eftir lestur eða sjónvarpsáhorf.

Haltu æfingunum einföldum og fljótlega eiga þau eftir að geta gert þær auðveldlega.

Fjársjóðsleit

Veldu leikföng, bolta eða aðra hluti og feldu þá víðs vegar um heimilið. Gott er að útbúa lista með myndum af hlutunum fyrir barnið til að krossa yfir. Slepptu því samt að fela hluti á stöðum sem erfitt er að komast að og ekki fela hluti sem hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir barnið.

Jafnvægisæfingar

Jafnvægi snýst ekki bara um líkamsrækt heldur byggir það líka upp hugræna færni og hjálpar barninu þínu að læra líkamsvitund. Til að byrja með getur þú notað eitthvað mjúkt, eins og lítinn baunapoka, og látið barnið ganga nokkur skref með hann í útréttri hendi eða á höfði og halda jafnvægi.

Þegar þau hafa vanist mjúkum hlutum, prófaðu harðari hluti eins og litla bók.

Málningarlímband

Það dásamlega við málningarlímband er að þú getur límt það á gólf og veggi án þess að hafa áhyggjur af því að skemma yfirborðið. Til dæmis er hægt að setja línur á gólfið fyrir barnið til að ganga eftir eða hoppa á milli. Þá er hægt að láta eins og gólfið í kringum límbandið sjálft sé vatn sem ekki má snerta. 

Einnig er hægt að nota málningarlímband til að búa til skotmark á vegg. Barnið getur þá notað mjúkan bolta eða uppkrumpaðan pappír til að kasta á skotmarkið.

Blöðrutennis

Blöðrutennis er bæði skemmtileg og örugg leið til að fá barnið til að hreyfa sig. Með því að nota blöðrur er lítil hætta á því að barnið meiði sig eða einhverjir innanstokksmunir skemmist. Blástu upp nokkrar blöðrur og notaðu borðtennisspaða til að slá blöðrunum ykkar á milli. Einnig er hægt að spila blöðrublak.

Sjáðu bara til þess að barnið komist ekki í óuppblásnu blöðrurnar og ræddu við barnið um mikilvægi þess að setja blöðrur ekki nálægt munninum. Mundu að fjarlægja allt rusl ef blöðrurnar springa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert