Hvaða leikföng henta fyrir börn?

Börnum þykir fátt skemmtilegra en að leika sér með skemmtileg …
Börnum þykir fátt skemmtilegra en að leika sér með skemmtileg leikföng. Samsett mynd

Það er ekkert leyndarmál að börn elska leikföng. Það getur þó verið flókið að velja leikföng sem henta börnum eftir því á hvaða aldri þau eru. Leikföng eiga að vera örugg og skemmtileg en þurfa líka að passa þroskastigi barnsins. 

Hér eru nokkur ráð um hvaða leikföng henta best hverju þroskastigi.

Ungbörn (0-12 mánaða)

Fyrstu þrjá mánuðina getur barnið þitt ekki gert mikið meira en að fylgjast með umhverfi sínu. Vegna þess að sjón barna er enn óskýr sjá þau best sterka liti og greinileg mynstur. Þegar barnið stækkar getur það notið leikfanga sem virkja einnig önnur skilningarvit.

Mörg leikföng eru hönnuð til að stuðla að gagnvirkni. Sem dæmi geta þau gefið frá sér ískur eða krumphljóð, haft hnökrótta áferð eða verið mjúk og ávöl. Ungbörn hafa tilhneigingu til að setja leikföng upp í sig og þau sem hafa einhvers konar áferð geta linað sársauka við tanntöku. 

Nokkur dæmi:

  • Farartæki í skærum litum og með greinileg mynstur
  • Hristur
  • Óbrjótanlegir speglar
  • Leikmottur
  • Virkniborð
  • Mjúkir og litríkir bangsar sem hægt er að þvo

Eins árs gömul börn

Smábörn heillast af orsök og afleiðingu og munu njóta hvers kyns leikfanga sem bregðast við gjörðum þeirra og nýta nýfengna hreyfifærni þeirra. Börn á þessum aldri hafa gaman af leikföngum sem til dæmis gera þeim kleift að slá bolta með hamri, spila tónlist eða eru með persónur sem skjóta upp kollinum.

Sum hátæknileikföng sem er ætluð þessum aldri geta nefnt bókstaf, form eða tölu þegar barnið ýtir á takka. Á þessum aldri eru börn enn of ung til að læra stafrófið en þau geta samt sem áður notið þess að heyra orðin sem slík leikföng gefa frá sér.

Nokkur dæmi:

  • Staflanlegir hringir
  • Staflanlegir bollar eða kassar
  • Leikföng sem mynda hljóð þegar þeim er ýtt áfram eða togað er í þau
  • Hljóðfæri eins og trommur, tambúrína eða hristur
  • Leikföng sem para saman form
  • Púsl með fjórum til fimm bitum
  • Farartæki með plastfígúrum

Tveggja til þriggja ára gömul börn

Á þessum aldri er leikur barna markvissari og þau búa yfir þeim fínhreyfingum sem þarf til að klára þraut eða byggja sjálf með kubbum. Þau munu byrja að hafa gaman af þykjustuleik sem líkir eftir gjörðum fólks í kringum þau. Einnig munu þau hafa gaman af hátæknileikföngum sem gefa frá sér hljóð, eins og símar sem hringja eða dúkkur sem tala.

Ef þú forðast staðalmyndir kynjanna skaltu ekki hafa áhyggjur ef barnið þitt leikur sér á kynbundinn hátt. Sama af hvaða kyni barnið er skaltu leyfa því að leika sér með þau leikföng sem það velur sér.

Börn eru áfram mjög virk á þessum aldri og flest þeirra hafa enn gaman af leikföngum sem byggja á því að ýta og draga. Þetta er frábær tími til að kynna barnið þitt fyrir hjóli. Byrjaðu á hjóli sem barnið getur knúið með báðum fótum. Færðu þig svo upp í þríhjól eða jafnvægishjól.

Nokkur dæmi:

  • Dúkkur og bangsar
  • Leikföng fyrir þykjustuleik, eins og símar eða eldhúsdót
  • Hjól, þríhjól eða jafnvægishjól
  • Hljóðfæri
  • Stór farartæki sem gefa frá sér hljóð
  • Púsl
  • Kubbar sem hægt er að festa saman

Fjögurra og fimm ára gömul börn

Á þessum árum eykst námsgeta barna gífurlega. Þetta er því góður tími til að kynna þau fyrir gagnvirkum kennsluleikföngum sem þjálfa stærðfræði og talfærni, eins og hljóðborð eða spjaldtölvur með leikjum sem foreldrarnir hafa samþykkt.

Börn á þessum aldri eru mörg hver farin að ímynda sér að þau séu einhver annar og geta hugsað sér að leika ýmis hlutverk.

Nokkur dæmi:

  • Myndlistarvörur, leir, föndurvörur
  • Tölvustýrð kennslutæki
  • Púsl
  • Dúkkur, eins og Barbie
  • Aksjónkallar
  • Kubbar eins og Lego
  • Búningar
  • Borðspil sem krefjast ekki lesturs
  • Boltar
  • Hjól með hjálpardekkjum

Sex og sjö ára gömul börn

Á þessum aldri fara börn smátt og smátt að þróa með sér áhugamál, þó undir áhrifum frá jafnöldrum og jafnvel kennurum. Sumum börnum finnst gaman að gera vísindatilraunir, öðrum að mála eða föndra og enn öðrum að leika sér með dúkkur. Vinir verða sífellt mikilvægari og barnið þitt byrjar að biðja um ákveðið leikfang vegna þess að allir aðrir eiga það.

Á þessum aldri fá mörg börn áhuga á tölvuleikjum en þeim finnst einnig gaman að eiga vini til að spila íþróttir og borðspil. Mörg þeirra hafa gaman af tónlistartengdum leikföngum, en það getur reynst erfitt að spila á raunverulegt hljóðfæri.

Nokkur dæmi:

  • Vísindagræjur
  • Slím
  • Seglar, stækkunargler og sjónaukar
  • Myndlistar- og föndurvörur
  • Leikjatölvur
  • Kubbar til að byggja með, eins og Lego
  • Íþróttatengd leikföng
  • Fjarstýrðir bílar
  • Dúkkur, eins og Barbie
  • Leikir sem krefjast kænsku, eins og skák og Jenga

Börn átta ára og eldri

Mörg börn á þessum aldri hafa gaman af útileikjum og útifarartækjum eins og hlaupahjólum, reiðhjólum og línuskautum. Þau öðlast áhugamál og hæfileika sem líkjast þeim sem fullorðnir hafa. Einnig geta þau þróað með sér sérstaka ástríðu eða gerst safnarar. Mörgum þeirra finnst gaman að búa til hluti og þeim finnst keppnisleikir af öllum gerðum ómótstæðilegir.

Nokkur dæmi:

  • Flóknari vísindagræjur
  • Spjaldtölvur eða fartölvur fyrir netleiki
  • Leikjatölvur
  • Föndurvörur
  • Slím
  • Flókin byggingasett
  • Borðspil, eins og Skrafl, Matador og Trivial Pursuit ætlað börnum
  • Búnaður til útiveru, eins og hjól

Parents

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert