Kristján Sveinsson hefur fundið réttu hilluna

Kristján Sveinsson segir sjókajakana mjög stöðuga og sjaldgæft að þeir …
Kristján Sveinsson segir sjókajakana mjög stöðuga og sjaldgæft að þeir velti.

Á kajakferð umhverfis Stykkishólm fá gestir Kristjáns Sveinssonar að komast í mikið návígi við dýralífið. 

Óhætt er að segja að Kristján Sveinsson hafi fundið sér rétta hillu í lífinu. Hann er mikið náttúrubarn og starfar sem leiðsögumaður á Snæfellsnesi auk þess að reka sjókajakaútgerð sem gerir út frá Stykkishólmi. Áhuginn á kajökum og útivist kviknaði snemma og notaði Kristján fermingarpeningana til að kaupa straumvatnskajak og um tvítugt var hann farinn að vinna fyrir sér sem leiðsögumaður í flúðasiglingum. Fyrir fimm árum settist hann að í Stykkishólmi og var ekki lengi að uppgötva hve gaman er að ferðast um svæðið á sjókajak. Í framhaldinu fæddist kajakleigan Kontiki Kayaking með stuðningi frá Sóknaráætlun Vesturlands.

Eflaust hafa margir lesendur farið í skemmtisiglingu frá Stykkishólmi og fengið að upplifa óviðjafnanlegt dýralíf Breiðafjarðar. Í ferðum Kontiki eru áherslurnar ekki ósvipaðar, en farið mun styttra út á fjörðinn enda ekki á allra færi að róa sjókajak langar leiðir. Lagt er af stað frá Skipavík við Nesveg og farið meðfram nærliggjandi eyjum og hólmum, þar á meðal eyjunni Landey sem er sú eyja sem er næst Stykkishólmi, og svo nálægt bænum að á háfjöru má komast fótgangandi út í eyjuna.

Skipsflakið er einn af hápunktum ferðarinnar og mikilvæg heimild um …
Skipsflakið er einn af hápunktum ferðarinnar og mikilvæg heimild um sögu íslensks sjávarútvegs.

Skipsflak, selir og jafnvel hafernir

„Þetta eru byrjendavænar ferðir og förum við vandlega yfir öryggisatriðin auk þess að kenna fólki að róa rétt. Allan tímann erum við örstutt frá landi, í kringum eyjur og hólma, og farinn um 5-6 km hringur,“ útskýrir Kristján og segir engu líkt að skoða svæðið á sjókajak enda ekkert vélarhljóð sem trufli kyrrðina, og hægt að komast í mikið návígi við fuglana og önnur dýr sem hafa gert sér heimkynni í og við eyjarnar. Róið er í litlum hópum og aldrei fleiri en átta gestir í hverri ferð. „Sjókajakar eru vistvænn samgöngumáti og upplifunin lík því að sitja ofan á vatninu. Leiðsögumaður er alltaf með í för og ef heppnin er með ber ekki bara fjölbreytt fuglalíf fyrir augu heldur líka seli og jafnvel haferni.“

Hreyfing sem flestir ráða við

Einn af hápunktum ferðarinnar er flakið af Þorgeiri GK sem strandaði við Landey fyrir hartnær þremur áratugum. „En skipið er mun eldra en það og hluti af merkilegri sögu íslensks sjávarútvegs,“ útskýrir Kristján en óvíða í heiminum má komast í svo mikið návígi við skipsflak á sjókajak og flakið ennþá tiltölulega heillegt eftir allan þennan tíma.

Spurður um það hversu mikið róðurinn reynir á líkamann segir Kristján að fólk sem er í eðlilegu formi eigi ekki í neinum vanda með að ljúka hringnum og gæti leiðsögumaður þess að haga hraðanum í samræmi við getu fólksins í hverjum hóp. Að róa sjókajak er hvorki sérstaklega flókið né erfitt og eiga þeir sem geta hjólað að ráða vel við stutta kajakferð. Þá eru í boði opnir tveggja manna kajakar sem henta vel til að ferja gesti sem vegna aldurs eða heilsufars eiga erfitt með að róa einir og óstuddir.

Allir fá sérstakan vatnsheldan jakka til að klæðast og svokallaða svuntu sem lokar opinu á kajakinum, að ógleymdu björgunarvestinu. Mælir Kristján með að gestir klæðist þægilegum íþróttaskóm sem mega blotna og léttum en hlýjum útivistarbuxum sem hefta ekki hreyfingu. Hann segir sjaldgæft að viðskiptavinir velti kajak sínum enda eru sjókajakar mjög stöðugir. „Um það bil einum af hverjum hundrað tekst að velta. Þá fellur fólk einfaldlega úr bátnum og fær aðstoð leiðsögumanns við að komast aftur um borð. Þó sjórinn sé kaldur þá verður engum meint af baðinu og hitnar fólki fljótt þegar það er komið aftur á sinn stað í kajaknum.“

Ferðin kostar 9.900 kr. á mann en fram til 15. júní verður hægt að nýta sérstakt tveir-fyrir-einn tilboð.

Ekki eru margir staðir í heiminum þar sem komast má …
Ekki eru margir staðir í heiminum þar sem komast má á sjókajak í návígi við heillegt skipsflak.
Mikið dýralíf er á svæðinu og láta fuglarnir fara vel …
Mikið dýralíf er á svæðinu og láta fuglarnir fara vel um sig á eyjunum
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert