Þetta er ódýrasti áfangastaðurinn 2024

Hội An í Víetnam er ódýrasti áfangastaðurinn árið 2024!
Hội An í Víetnam er ódýrasti áfangastaðurinn árið 2024! Samsett mynd

Á dögunum var hin árlega Holiday Money-skýrsla um ódýrustu áfangastaði heims gefin út í 18. skipti. Samkvæmt skýrslunni trónir Víetnam á toppnum í fyrsta sinn og er hafnarborgin Hội An sú hagstæðasta fyrir ferðamenn. 

Við gerð skýrslunnar, sem gefin er út af pósthúsinu í Bretlandi, er litið til ýmissa þátta, allt frá gengi gjaldmiðils til kostnaðar við að fara út að borða. Notast er við svokallað Worldwide Costs Barometer pósthússins sem skoðar staðbundið meðalverð á átta vinsælum ferðamannavörum. 

Niðurstöður leiddu í ljós að þrjár af átta vörum eru ódýrastar í Hội An – bjórinn kostar 1,16 sterlingspund, eða sem nemur rúmum 202 krónum, Coca-Cola-flaska kostar 0,72 sterlingspund, eða rúmar 125 krónur og sólarvörn kostar 3,70 sterlingspund, eða rúmlega 645 krónur. 

Hội An þykir með mest heillandi og sjarmerandi borgum Víetnam. Hún býður ferðalöngum upp á töfrandi strendur, spennandi skoðunarferðir, áhugaverða sögu, bragðgóða matarmenningu og heillandi kvöldstundir á næturmarkaðinum fræga. 

Borgin hefur upp á margt að bjóða.
Borgin hefur upp á margt að bjóða. Ljósmynd/Unsplash/Do Nhu

Höfðaborg næstódýrasti áfangastaðurinn 2024

Árið 2023 var Höfðaborg í Suður-Afríku valin ódýrasti áfangastaðurinn, en í ár er borgin á öðru sæti listans. Staðbundið verðlag hefur hækkað á síðustu mánuðum, en þar færð þú þó enn ódýrustu þriggja rétta máltíðina sem kostar að meðaltali 34,64 sterlingspund, eða tæplega 6.400 krónur. 

Mombasa í Kenýa er á þriðja sæti listans, Tókýó í Japan í því fjórða og Algarve í Portúgal í fimmta sæti. 

Höfðaborg í Suður-Afríku er næstódýrasti áfangastaðurinn í ár.
Höfðaborg í Suður-Afríku er næstódýrasti áfangastaðurinn í ár. Ljósmynd/Unsplash/Kylefromthenorth
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert