Ósanngjörn umræða bætir ekkert

Það er óhugnanlegt hversu stutt virðist í gyðingahatrið víða og er ekki laust við að vottað hafi fyrir slíkri andúð hér á landi á seinustu öld og svo óeðfellt sem hatrið er, hafi það farið heldur vaxandi frá upphafi þessarar aldar. Ofstækisfullar ákvarðanir Adolfs Hitlers gagnvart gyðingum eru stundum notaðar sem algjör undantekning sögulega séð, sem fer þó fjarri. Þótt gerðir nasista og nóta þeirra skeri sig rækilega úr, þá breyta þær ekki því, að fjöldi annarra var óneitanlega móttækilegur fyrir slíku, þótt brenglaðan leiðtoga í tímabundnu alræðisríki hafi vissulega þurft til að hefja þjóðarútrýmingu á fyrri parti síðustu aldar.

Það var víða hik, og með ólíklegustu þjóðum, og tregða við að taka á móti gyðingum sem skynjuðu smám saman óttann og leituðu sér skjóls. Sumir of seint. Það skal ekki rifjað upp að þessu sinni, en í lýðræðislöndunum var víða þæfst á móti og valdamiklir menn, sem sumir eru hátt hafðir í sögunni, höfðu ekki fyllilega hreinan skjöld í þeim efnum.

...