Öxin mætir loks stokknum

Þá eru þrjár vikur liðnar frá óvæntum árásum Hamas-liða á borgara og börn í Ísrael. Flestir af þeim talsmönnum heimsins, sem Ísraelsmenn taka helst mark á, lýstu því yfir strax eftir að ófögnuðurinn blasti við þeim að sjálfsagt væri og reyndar hafið yfir allan vafa að sú þjóð sem slíkt mætti þola hefði allan rétt til að bregðast við, grípa til allra hugsanlegra varna og eftir atvikum eðlilegra hefnda, til þess að leitast við að tryggja að slík aðför yrði aldrei reynd gegn henni á ný.

Afstaðan að breytast

En jafnvel þeir sem gáfu slíkar yfirlýsingar, afdráttarlausar og án allra fyrirvara, hafa upp á síðkastið dregið nokkuð í land. Fyrrnefndur ótvíræður réttur sé að sjálfsögðu enn fyrir hendi segja þeir og studdur án nokkurs fyrirvara. En þar sem Hamas-hryðjuverkasveitirnar, þær sömu og skáru ísraelsk börn á háls og birtu af gjörðunum myndir, tóku einnig fanga í gíslingu, á þriðja hundrað slíkra, og hafa þegar skilað aðeins fjórum, þá sé kannski...