Manndrápstíðni enn hvað lægst hér

Manndrápsmál á Íslandi eru afar fátíð miðað við það sem þekkist á Norðurlöndunum. Við erum á svipuðu róli og Noregur þegar horft er á mál miðað við fjölda íbúa. Guðbjörg S. Bergsdóttir er verkefnastjóri á gagnavísinda og upplýsingadeild hjá embætti ríkislögreglustjóra og hefur puttann á púlsínum þegar kemur að tölfræði yfir hvers konar afbrot framin eru hér á landi. Á tólf mánuðum hafa komið upp átta manndrápsmál og er upplifun margra að það séu tölur sem við höfum ekki séð áður. En það er ekki tilfellið. Guðbjörg rekur það í þættinum og upplýsir að við höfum áður þurft að horfa framan í fimm slík mál á einu ári. Hún fer yfir hvers eðlis þau manndrápsmál sem upp hafa komið á öldinni eru. Þarf engum að koma á óvart að karlmenn eru 90 prósent gerenda. Þá segir hún frá þolendakönnunum sem löreglan stendur fyrir þar sem meðal annars kemur í ljós að einungis 10 til 12 prósent kynferðisbrota eru tilkynnt og það þrátt fyrir mikla umræðu og vakningu í samfélaginu.