Bækur fyrir og eftir konur

Á morgun, sumardaginn fyrsta, fjalla stofnendur og útgefendur Bókabeitunnar, Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir, um bækur fyrir og eftir konur sem kallaðar hafa verið ýmsum nöfnum á síðustu árum, eins og til að mynda skvísubækur. Viðburðurinn verður í Bókasafni Kópavogs.

Heiti skvísubækur er notað í kynningu Bókasafnsins og Marta segir að þær hafi náttúrlega verið að gefa út þannig bækur hjá Bókabeitunni, „rómantískar ástarsögur eða ljúflestrarbækur, hvað sem þær eru kallaðar, og má líka kalla þær skvísubækur“.

Orðið skvísubækur hefur stundum haft á sér niðrandi blæ, en þá kannski fyrst og fremst vegna þess að það er alsiða að tala það niður sem konur hafa gaman af að gera.

„Það er svo áhugavert að karlmenn hafa margir líka gaman af að lesa svona bækur, en fara oft leynt með það,“ segir Marta. „Þetta er í grunninn bara eins og hverjar aðrar skáldsögur þar sem verið er að fjalla um samskipti fólks og manneskjulegar tengingar, en vissulega eru þetta oft bækur um konur skrifaðar fyrir konur og þá þarf að setja einhvern stimpil á þetta eins og það sé ekki nógu gott fyrir einhvern annan.“

Samt eru þetta oft bækur sem taka á mjög erfiðum og þungum vandamálum.

„Það er einmitt málið, innihaldið er oft mjög erfitt og mjög þungt og það er sammerkt með þeim bókum sem við höfum verið að gefa út að þær eru allar að fjalla, á misdjúpan og misþungan hátt, um málefni sem við þekkjum öll. Það er alltaf eitthvað sem maður getur tengt við og speglað sig í eða einhver í kringum mann.“

„Ég vil að við hættum að tala um skvísubækur og köllum þær bara ástarsögur, þó þær endi kannski illa stundum,“ segir Birgitta. „Af hverju varð ástarsaga allt í einu skammaryrði? Ég myndi vilja sjá íslenska höfunda sem skammast sín ekkert fyrir það að vera að skrifa ástarsögur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka