„Ég ætla bara að eyða eins miklu og ég get“

Forsetaframbjóðendur bíða þess að fara í beina útsendingu.
Forsetaframbjóðendur bíða þess að fara í beina útsendingu. mbl.is/Arnþór

Frambjóðendurnir tólf í forsetakosningunum voru spurðir í kappræðum ríkissjónvarpsins því hversu miklum peningum þeir hyggist verja í kosningabaráttuna.

Ólík svör bar á góma en Halla Hrund Logadóttir, Ástþór Magnússon og Katrín Jakobsdóttir nefndu enga tölu.

Frá 3.600 krónum upp í 20 milljónir króna

Baldur Þórhallsson kvaðst skjóta á 20 milljónir króna og bætti við að hann hefði fyrst og fremst fjármagnað framboðið sitt með fjárframlögum.

Eiríkur Ingi Jóhannsson nefndi að hann hefði varið 3.600 krónum í ljósrit til þessa en framboðið gæti kostað einhver hundruð þúsunda króna að lokum.

Halla Hrund Logadóttir kvaðst ekki vita hvað framboðið muni kosta en giskar á að það muni kosta „einhverjar milljónir“.

Allt úr eigin vasa 

Halla Tómasdóttir sagðist komin í um fimm milljónir króna í heildarkostnað nú þegar og að framboðið væri rekið með framlögum. 

Helga Þórisdóttir sagðist hafa varið um sjö milljónum króna nú þegar og að þær komi allar úr hennar vasa.

Jón Gnarr kvaðst algjörlega háður frjálsum framlögum. Sagðist hann telja vera búinn að „nurla saman“ þremur milljónum króna en giskaði á að framboðið myndi kosta tíu milljónir króna.

Ásdís Rán var tilbúin í upphafi kvölds.
Ásdís Rán var tilbúin í upphafi kvölds. mbl.is/Arnþór

Lágstemmt til að byrja með 

Katrín Jakobsdóttir sagði framboðið rekið með framlögum en tjáði sig ekki um hversu miklu hefði verið varið. „Við ætlum ekki að eyða meira en við söfnum,“ sagði hún og bætti við að framboð sitt yrði lágstemmt til að byrja með.

Steinunn Ólína kvaðst reka framboðið á frjálsum framlögum en að hún gerði ráð fyrir því að hafa varið 400 þúsund krónum á þessum tímapunkti.

Viktor Traustason sagðist eingöngu hafa keyrt hringveginn við söfnun undirskrifta og að hann hefði einungis keypt eldsneyti til þessa.

Gerir ráð fyrir 15 milljónum króna 

Arnar Þór Jónsson nefndi að þjóðþekktir einstaklingar hefðu auðveldara aðgengi að fjölmiðlum.

Hann kvaðst stefna að því að halda þessu undir 15 milljónum króna en taldi sig þurfa að fara upp í þá upphæð til þess að geta kynnt sig með fullnægjandi hætti.

Ásdís Rán sagðist ekki hafa eytt neinu en að hún hefði stofnað reikning á Karolina fund. „Ég ætla bara að eyða eins miklu og ég get.“

Ástþór sagðist að lokum vera búinn að selja bók og vörur, en svaraði ekki hve miklu hann hefði varið í framboðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert