Myndskeið: Hátt í 140 lömb á tveimur sólarhringum

Hátt í 140 lömb voru borin á Stað í Grindavík á tveimur sólarhringum að sögn Ragnars Haukssonar sem aðstoðar Hermann Ólafsson, fjárbónda á Stað, við sauðburð.

Kind var að bera þegar blaðamenn og ljósmyndari mbl.is litu við í gær, og veitti fréttateymið Ragnari liðsinni við að taka á móti lambinu, eins og sést í myndskeiðinu hér að ofan.

Ragnar Hauksson aðstoðarfjárbóndi með nýfætt lamb.
Ragnar Hauksson aðstoðarfjárbóndi með nýfætt lamb. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kindurnar verða um kyrrt

Ragnar segir að kindurnar á Stað hafi orðið að yfirgefa Grindavík þegar hættan var sem mest, en þá óskaði Matvælastofnun eftir því að kindurnar færu. Dvöldu þær á bænum Kiðafelli í Kjós á meðan. 

Ragnar segir að kindurnar hafi síðan fengið að snúa til baka.

Hann telur ólíklegt að kindurnar þurfi að yfirgefa bæinn hefjist gos á nýjan leik. Ástæðan sé sú að hraunið myndi ólíklega ná það langt inn í bæinn.

Ragnar tekur fram að þegar það gaus í mars hafi kindurnar fengið að vera um kyrrt, en þá fengu aðrir bændur í Grindavík að flytja sitt fé á Stað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert