Umfangsmiklar njósnir Rússa afhjúpaðar í Noregi

Norska öryggislögreglan PST kveðst hafa áreiðanlega vitneskju um starfsemi rússneskra …
Norska öryggislögreglan PST kveðst hafa áreiðanlega vitneskju um starfsemi rússneskra njósnara í Vestland-fylki en njósnir Rússa og skemmdarverkastarfsemi hafa verið umræðu- og áhyggjuefni í Noregi allt frá því Rússar réðust á Úkraínu árið 2022. Ljósmynd/Politiforum.no

„Við sjáum að markmið Rússa á svæðinu eru að einhverju leyti að vinna skemmdarverk. Starfsemi þeirra nær hér um allt og þeir flytja sig milli staða.“

Þetta segir Torgils Lutro, yfirmaður norsku öryggislögreglunnar PST í Vestur-Noregi, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK um það sem PST telur umfangsmikla njósnastarfsemi rússneskra útsendara í landshlutanum sem að sögn Lutro hefur stigmagnast síðan Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmlega tveimur árum.

Í vesturhluta Noregs er að finna nánast lífsnauðsynlega innviði, að minnsta kosti hvað snertir efnahag landsins, einkum helsta fjöreggið sem olían í Norðursjónum hefur reynst frændþjóðinni allar götur frá 1970. Má þar nefna landvinnslustöðvar á borð við Mongstad, Kollsnes og Sture en einnig flotastöðina Haakonsvern sem er ein sú stærsta í Norður-Evrópu.

Sýni Noreg í neikvæðu ljósi

Að sögn Lutro eru Rússar ekki einvörðungu á höttunum eftir ávinningi í eigin þágu, þeir ætli sér einnig að skaða orðspor Noregs meðal bandalagsríkja innan Atlantshafsbandalagsins, NATO.

„Það er ljóst að eitt af markmiðum Rússa er að sýna okkur í neikvæðu ljósi,“ heldur PST-yfirmaðurinn áfram frásögn sinni, „þeir vilja sýna fram á að við höfum ekki stjórn á okkar málum eða getum ekki stutt okkar bandamenn með útflutningi við einhverjar aðstæður sem hugsanlega koma upp í framtíðinni,“ segir hann.

PST hafi uppgötvað, eins og grunur hafi raunar gefið til kynna, að Rússar hafi stundað njósnir í Vestland-fylki síðan þeir gerðu árásina á Úkraínu en norskir fjölmiðlar hafa einnig fjallað um meinta njósnastarfsemi rússneskra togara og svokallaðra rannsóknarskipa, sem sigla undir fölsku flaggi, mun víðar við strendur Noregs. Um þá starfsemi hefur mbl.is einnig fjallað.

Lutro segir rússneska njósnara einbeita sér að ólíkum skotmörkum og markmiðum. Megi þar nefna viðkvæma innviði og herstöðvar en einnig séu Rússar á höttunum eftir upplýsingum, svo sem hvað vinnubrögð og verklagsreglur norska hersins varðar.

Eftir innrásina í Úkraínu hafa norsk stjórnvöld vísað fimmtán starfsmönnum rússneska sendiráðsins í Ósló úr landi vegna grunsemda um að þeir hafi lagt stund á njósnir í ranni móttökuríkisins. Segir Lutro slíkar brottvísanir einfaldlega leiða til þess að Rússar þurfi að hugsa sín vinnubrögð upp á nýtt hvað njósnir varðar innan norskra landamæra.

Neytt ýmissa ráða

„Það er enginn hægðarleikur fyrir okkur að finna þá sem standa að þessu,“ segir Lutro. „Þeir hverfa í fjöldann, það er jú einmitt þeirra starf. Ekki er sjálfgefið að þetta séu rússneskir ríkisborgarar, til er í dæminu að þeir hafi verið sannfærðir um að starfa fyrir Rússland fyrir peninga eða fyrir hótanir,“ heldur hann áfram.

Vissulega hefur PST varað ítrekað og alvarlega við njósnum Rússa í Noregi í ársskýrslum sínum um hættustigið í Noregi, síðast á þessu ári, og hafa þessar skýrslur verið öllum almenningi aðgengilegar.

„Við höfum neytt ýmissa ráða til að svipta hulunni af þeim og í mörgum tilfellum höfum við öðlast góða yfirsýn,“ segir Lutro enn fremur og segir PST kjósa að greina frá stöðu mála nú svo norskt samfélag viti af hættunni, stofnunin sé ekki alsjáandi og ábendingar og grunsemdir almennings séu velkomnar inn á borð PST.

„Í því tilliti biðjum við þá sem bera ábyrgð á eða eiga mikilvæga innviði að vera sérstaklega á verði. Hverjir leggja leið sína um vinnustaði þeirra? Hverjir hafa samband við þá, hverjir taka myndir og spyrja spurninga?“ nefnir Lutro sem dæmi.

Nýir óvinir velkomnir

Hann segir Vestur-Noreg vel geta freistað Rússa umfram önnur landsvæði, þar fari margar heræfingar á vegum NATO fram auk þess sem þar séu þau vopn þróuð sem nota megi gegn Rússum á vígvöllum Úkraínu. „Við fylgjumst vel með flotastöðinni Haakonsvern, umhverfis hana er fjöldi fasteigna í einkaeigu. Við fylgjumst með því hverjir kaupa fasteignir þar,“ segir Lutro.

Hann segir Rússa reiðubúna til að taka mikla og aukna áhættu til að sækja þær upplýsingar sem þeir vilji. „Rússar búa sig undir að eignast nýja óvini í viðbót við þá sem þeir eiga í dag,“ segir Torgils Lutro að lokum, yfirmaður norsku öryggislögreglunnar PST í Vestur-Noregi.

NRK
NRKII (rússneskir sendiráðsstarfsmenn brottrækir)
NRKIII (frá Rogaland til Pétursborgar)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert