„Að eiga afabarn er alveg nýtt og eitthvað sérstakt“

Jón Axel útvarpsmaður hefur alltaf tíma fyrir barnabarnið.
Jón Axel útvarpsmaður hefur alltaf tíma fyrir barnabarnið. Samsett mynd

Jón Axel Ólafsson, rekstrarfræðingur, fyrirtækjaeigandi og útvarpsmaður hjá K100, varð afi í fyrsta sinn í árslok 2022. Sonur Jóns, Ólafur Ásgeir Jónsson framleiðslustjóri hjá True North og sambýliskona hans Silja Helgadóttir röntgenfræðingur eignuðust son, Vigni Rafn, þann 11. desember 2022. 

Jón Axel elskar að vera afi og segir samkeppnina um drenginn vera gríðarlega. „Hann á þrjá afa, fjórar ömmur og haug af frænkum. Það eru allir óðir í að vera með hann enda er hann sætastur og bestur.

Það hefur lengi verið beðið eftir þessum strák sem reynst hefur hinn fallegasti sólargeisli. Sjálfur á ég tvö börn og á frábært samband við þau í dag, en að eiga afabarn er alveg nýtt og eitthvað sérstakt. 

Áður en hann fæddist voru allskyns plön um dvöl í fjarlægum löndum. Þau plön hafa mikið breyst eftir að drengurinn kom í heiminn. Einhvern veginn langar manni ekki að vera mikið í burtu frá honum, að minnsta kosti ekki á meðan hann er svona lítill. Það er mikilvægt að vera hluti af lífi hans þegar hann er að mótast og þroskast. Afi þarf að vera til staðar og tryggja að þetta sé alltaf að fara rétt fram,“ útskýrir hann. 

Jón Axel og Vignir Rafn eru miklir félagar.
Jón Axel og Vignir Rafn eru miklir félagar. Ljósmynd/Aðsend

Jón Axel hefur í nógu að snúast þessa dagana en gaf sér tíma til þess að deila fimm af sínum bestu afaráðum með lesendum Fjölskyldunnar á mbl.is.

Tíminn 

„Það eina sem skiptir máli er tíminn sem lagður er til. Það kostar ekkert að gefa tíma og hann er það verðmætastas sem til er. Gefa tíma kostar ekkert og tíminn sem fer í afastrákinn er sá besti. Allt annað kemur þar á eftir.“

Ólafur Ásgeir Jónsson framleiðslustjóri hjá True North og sambýliskona hans …
Ólafur Ásgeir Jónsson framleiðslustjóri hjá True North og sambýliskona hans Silja Helgadóttir röntgenfræðingur eiga soninn Vigni Rafn. Ljósmynd/Aðsend

Einlægur áhugi

„Það er ekkert eins gefandi og að setja sig inn í hugarheim barnsins. Það sér umhverfi sitt öðrum augum en við fullorðna fólkið og því er gríðarlega mikilvægt að setja sig í þessi spor. Það getur reynst erfitt....en það kemur að lokum.“

Bílar og tæki sem hreyfast

„Við val á leikföngum þá er gríðarlega mikilvægt að velja þau sem hafa upp á mestu sérstöðuna að bjóða. Mér hefur tekist gríðarlega vel með bíla sem breytast í vélmenni og litríkar bílabrautir. Þetta er lykilatriði.“

Ekkert nammi eða sykur

„Þar sem nammi og sykur er bannað af foreldrunum verður maður að vera hugmyndaríkur þegar kemur að framsetningu á einhverju sem er minna spennandi en súkkulaði og sykur. Það þarf að gera þetta skemmtilegt.“

Vignir Rafn er mjög hrifinn af matargerð afa síns.
Vignir Rafn er mjög hrifinn af matargerð afa síns. Ljósmynd/Aðsend

Einlæg ást, væntumþykja og öryggi

„Það er ekkert sem jafnast á við það þegar maður er beðinn um faðmlag eða þegar óskað er eftir að fá að koma til afa. Það er eitthvað svo einlægt og fallegt. Þess vegna má aldrei stofna því sambandi í hættu, öryggi skapar traust. 

Afafangið þarf að vera öruggasti staður í heimi og það má aldrei ögra þeirri líðan með leik sem skapar hræðslu og óöryggi. Afi er alltaf til staðar, hefur alltaf tíma og er það traustasta sem til er. Það er ekkert sem afi getur ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert