Hætta metin mikil í Grindavík

Laugardaginn 27. apríl fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. …
Laugardaginn 27. apríl fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Ekki hefur meira hraun farið yfir varnargarðinn síðan þá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veður­stofa Íslands hef­ur upp­fært hættumat vegna jarðhrær­ing­anna á Reykja­nesskaga. Hætta vegna hraunflæðis hefur verið talin aukin en hætta vegna gjósku talin hafa dvínað.

Í Grindavík hefur hættustig verið hækkað vegna hraunflæðis og vísbendinga um að brátt dragi til tíðinda á svæðinu.

Ekki mikil gjóska að sleppa út í andrúmsloftið

Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að á vísindafundi í morgun hafi hættumatið verið yfirfarið. Breytingar snúi að því að hætta vegna gjósku hafi verið lækkuð úr töluverðri hættu í litla hættu á svæði eitt og sex.

„Þessi breyting er gerð vegna þess að það hefur ekki verið mikil gjóska að sleppa út í andrúmsloftið.“

Kort/Veðurstofa Íslands

Þá kemur fram að hættan í Grindavík, svæði fjögur, hafi verið aukin úr töluverðri hættu í mikla vegna hraunflæðis, þar sem hrauntungan hefur verið að stækka, þó hægt sé, innan svæðisins síðustu daga.

Þá eru einnig taldar auknar líkur á að það dragi fljótlega til tíðinda á svæðinu í kringum Sundhnúkagíga og er metið líklegra en áður að hraun geti runnið hratt til suðurs. 

Því hefur heildarhætta í Grindavík verið hækkuð í mikla hættu úr töluverðri hættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert