Aðeins 10-12% kynferðisbrota tilkynnt

Svokallaðar þolendakannanir sem framkvæmdar eru af lögregluembættum leiða í ljós að einungis 10-12 prósent kynferðisbrota eru tilkynnt til lögreglu.

Þetta upplýsir Guðbjörg S. Bergsdóttir verkefnastjóri hjá gagnavísinda og upplýsingadeild hjá embætti ríkislögreglustjóra. Guðbjörg er gestur Dagmála í dag og ræðir um fjölda manndrápsmála sem komið hafa upp á Íslandi síðustu misseri ásamt tölfræði sem haldið er saman um hin margvíslegustu afbrot sem kærð eru.

Ekki séríslenskt

Þolendakannanir sem framkvæmdar eru árlega í samstarfi við fyrirtæki sem sérhæfa sig í gerð kannana, upplýsa að um helmingur ofbeldisbrota eru ekki tilkynnt til lögreglu. Þegar kemur að kynferðisbrotum er einungis brot af slíkum málum tilkynnt.

Guðbjörg segir að það sé svipuð staða og birtist í sambærilegum könnunum sem gerðar eru í löndunum í kringum okkur. „Þetta er ekkert séríslenskt,“ upplýsir hún.

Alvarlegum ofbeldisbrotum fjölgaði

Auðgunarbrotum hefur fækkað síðasta áratug en hún telur að brotahegðun hafi færst að hluta yfir í stafræn brot og bendir á að fjöldi fjársvika hafi aukist.

Síðasta ár einkenndist af mikilli fjölgun alvarlegra ofbeldisbrota og segir hún þau hafa verið á bilinu 300 til 350. Erfitt er að meta eitt ár sem sker sig úr og fylgst verður grannt með þróun þessara mála.

Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins en Guðbjörg ræðir þolendakannanir og hvað birtist í þeim í því broti þáttarins sem fylgir með fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert