Handteknir eftir myndatöku í Vesturbæjarlaug

Mennirnir voru handteknir á staðnum.
Mennirnir voru handteknir á staðnum. Ljósmynd/Vesturbæjarlaug

Tveir menn voru handteknir í Vesturbæjarlaug í vetur þar sem þeir voru að mynda aðra gesti sundlaugarinnar.

Sinntu þeir í engu þegar starfsfólk gerði athugasemdir við hátterni mannanna. Greip starfsfólk þá til þess ráðs að hringja á lögreglu og úr varð að mennirnir voru færðir í lögreglubíl í járnum.

Myndataka í klefanum 

Anna Kristín Sigurðardóttir, forstöðumaður Sundlaugar Vesturbæjar, segir í samtali við mbl.is að atvikið hafi gerst snemma í vetur.

„Þeir hlýddu ekki tilmælum starfsmanna og því var hringt á lögreglu,“ segir Anna Kristín. Hvorki hún né eða annað starfsfólk hafi séð myndirnar en líkur séu á því að á þeim hafi verið eitthvað sem benti til saknæms athæfis þar sem mennirnir voru handteknir. 

Hún segir að myndatakan hafi verið í karlaklefa og eftir því sem starfsfólk best veit var myndatakan af öðrum karlmönnum.

Málið brátt á ákærusvið 

Samkvæmt upplýsingum frá Bylgju Hrönn Baldursdóttur, hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar höfuðborgarsvæðinu, hefur málið verið til rannsóknar, en hún á von á því að málið verði brátt sent til ákærusviðs lögreglunnar sem tekur ákvörðun um það hvort ákært verði í málinu eður ei. 

Er þetta annað tilvikið á fremur skömmum tíma þar sem kallað er til lögreglu vegna atviks af þessum toga.

Í vikunni var birtur dómur frá Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem maður var dæmdur vegna myndatöku í Nauthólsvík í júlí árið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka