Fleiri tugir látnir eftir óveður í Brasilíu

Hér sést maður njóta aðstoðar liðsmanna flughersins eftir að honum …
Hér sést maður njóta aðstoðar liðsmanna flughersins eftir að honum var bjargað í þyrlu frá flóðasvæðinu í Rio Grande do Sul-fylki. AFP/Brasilíska forsetaembættið

Alls hafa 56 látist af völdum flóða og aurskriða vegna óveðurs sem geisað hefur í suðurhluta Brasilíu. Þá eru 74 slasaðir og 67 til viðbótar saknað.

AFP-fréttastofan greinir frá og segir að hratt hækkandi vatnsborð í Rio Grande do Sul-fylki ógni stórborginni Porto Alegre, einni stærstu borginni í suðurhluta Brasilíu.

Fólk strandað á húsþökum

Hafa yfirvöld á staðnum reynt að rýma nokkur hverfi sem komin voru á kaf en í sumum tilfellum þurfti þyrlur til að bjarga fólki sem var fast á húsþökum. 

Þá er haft eftir almannavörnum í landinu að búist sé við mjög mikilli rigningu fram til morguns.

Einnig olli hröð hækkun Guaiba-árinnar, sem rennur í gegnum Porto Alegre, alvarlegum flóðum í miðbæ borgarinnar.

Verður miklu verra

Þegar vatn byrjaði að streyma yfir varnargarð meðfram ánni Gravatai gaf borgarstjórinn, Sebastiao Malo, út viðvörun á samfélagsmiðlinum X þar sem hann sagði að íbúar yrðu að flýja. 

Þessi viðvörun kom degi eftir að Eduardo Leite, fylkisstjóri Rio Grande del Sul, varaði við því á X að aðstæður á höfuðborgarsvæðinu ættu eftir að versna til muna. Sagði hann að um væri að ræða verstu hörmungar í sögu fylkisins. 

Sjá má íbúðarhverfi svo langt sem augað eygir á kafi í vatni, vegir hafa eyðilagst og brýr sópast í burtu í öflugum straumum. Standa björgunarsveitamenn frammi fyrir gríðarlegu verkefni þar sem heilu bæirnir, sumir án vatns og rafmagns, eru óaðgengilegir.  

Að sögn yfirvalda hafa að minnsta kosti 300 sveitarfélög orðið fyrir skaða af óveðrinu í Rio Grande do Sul síðan á mánudaginn og yfir 24.600 flúið heimili sín.

Vatn upp að mitti 

Rúmlega þriðjungur íbúa á flótta hefur verið fluttur í skjól sem komið hefur verið upp í íþróttamiðstöðvum, skólum og öðrum mannvirkjum.

„Þegar ég fór út úr húsinu óð ég vatn upp að mitti,“ sagði Claudio Almiro, 55 ára gamall, í samtali við AFP-fréttastofuna. „Ég missti allt.“

Luiz Inacio Lula da Silva, forseti landsins, heimsótti svæðið í fyrradag og hét því að ekki yrði skortur á aðstoð til að bregðast við hörmungunum sem hann segir vera vegna loftlagsbreytinga. 

Haft var eftir loftslagsfræðingnum Francisco Eliseu Aquino í gær að hrikalegir stormar væru afleiðing af hörmulegri blöndu hlýnunar og El Nino-veðurfyrirbærisins. Þá hefði stærsta land Suður-Ameríku nýlega upplifað öfgafulla veðuratburði, þar á meðal fellibyl í september, sem kostaði að minnsta kosti 31 lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert