Ver ekki skattasniðgöngu samstarfsmanna

Halla Tómasdóttir segist ekki ætla að verja skattasniðgöngu Richards Branson, eiganda Virgin-flugfélagsins. Hún starfar með honum á vettvangi The B-Team. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir það árum saman að koma sér undan skattgreiðslum í Bretlandi og víðar með því að vista fyrirtæki sín og auðævi í skattaskjólum.

Í Spursmálum er Halla spurð út í það hvort ekki felist hræsni í því að vinna með slíkum manni að málefnum sem varða heilbrigða og sanngjarna skattalega meðferð fyrirtækja á fjármunum sínum.

Orðaskiptin þar um má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.

Teymi gegn skattasniðgöngu

En þú talar um gildin sem þú brennur fyrir. Þessi hreyfing, B-Teymið, sem vísar reyndar ekki til þess að þið séuð ekki A-deildin...

„Við erum einfaldlega að segja að leið A sé ekki lengur fær. Og leið A er kannski þessi kenning sem Milton Friedman setti fram árið 1970 að eini tilgangur fyrirtækja sé að hámarka arðsemi fyrir hluthafa. Við höfnum því og teljum að vellíðan fólks og umhverfis og samfélags sé eitthvað sem fyrirtæki eigi og verði að láta sig varða.“

Og þarna hafið þið tekið fyrir þessi EGS málefni sem lúta að umhverfi, samfélagsábyrgð, stjórnarháttum og öðru slíku. Einn af þessum mönnum sem leiða þetta verkefni og eru einn af þínum nánustu samstarfsmönnum er Richard Branson sem er auðvitað magnaður karakter á alþjóðasviðinu, búinn að byggja upp ótrúlegt flugfélag og annað. Margar skemmtilegar myndir af ykkur vítt og breitt um heiminn sem maður hefur skoðað í gegnum tíðina. Mig langar til að spyrja þig út af þessum gildum sem þú talar um, nú hefur hann orðið fyrir gríðarlegu aðkasti og ákúrum, m.a. í Bretlandi, vegna skattamála. Hann er með nánar allar sínar eignir í skattaskjólum vítt og breitt um heiminn. Og það er ekki nóg með það að hann geri það heldur hefur hann talað digurbarkalega um það, m.a. í viðtali við Daily Telegraph að hann sé skattalegur útlagi og að hann hafi flutt sínar eignir á Bresku-Jómfrúareyjum til þess að komast undan skattgreiðslum. Hvernig fer það saman að predika yfir viðskiptalífi og almenningi um heiminn á grundvelli B-teymisins, að menn eigi að sýna samfélagslega ábyrgð, að A-leiðin sem Milton Friedman talar um en vera svo í forsvari verkefnisins með mann sem borgar bara, leyfi ég mér að segja, andskotans engan skatt?

Halla Tómasdóttir er nýjasti gestur Spursmála.
Halla Tómasdóttir er nýjasti gestur Spursmála. mbl.is/María Matthíasdóttir

Fer ekki fyrir þeirra persónulega lífi

„Já, ég ætla nú bara að byrja að segja að það eru 32 leiðtogar í B-Team og ég hef sem betur fer ekki tekið að mér að fara fyrir þeirra skattamálum eða þeirra persónulega lífi. Ég myndi ekki treysta mér til þess. En ég get bara sagt það að B-teymið fer fyrir ábyrgum skattareglum og við erum að reyna að fá alla okkar meðlimi og marga aðra, og erum með á þriðja tug alþjóðlegra fyrirtækja til að borga einmitt skatta þar sem starfsemi fer fram því það er auðvitað ekki einsdæmi, hvorki hjá Richard né öðrum að fyrirtæki setji niður höfuðstöðvar sínar þar sem þau hafa skattahagræði af. Og þetta er ekki eitthvað sem við erum hrifin af.“

En þetta eru ekki bara fyrirtækin hans. Þetta eru eignirnar hans. Það er búið að kortleggja eignarhaldið hans. Ef hann félli frá eða þetta yrði gert upp þá myndi hann nánast ekki borga penní í skatta í heimaríki eða annarsstaðar.

„Hann býr náttúrulega á Bresku-Jómfrúareyjum þótt hann sé með starfsemi víðar.“

Já, en það sem ég er að spyrja út í er að þú yfirgafst Viðskiptaráð vegna þess að þetta samræmdist ekki þeim gildum sem þér leið með en þú predikar þessi góðu gildi, sem allir geta tekið undir að eru góð, með mönnum eins og honum, sem koma sér undan því að greiða réttlátan skerf til samfélagsins.

„Og ég mun aldrei reyna að verja það. Við fórum líka fyrir, og allir sem geta farið inn á bteam.org og lesið um leiðbeiningar okkar um heiðarlega skattameðferð fyrirtækja. Og þar tölum við fyrir því að skattar séu greiddir þar sem starfsemin fer fram.“

Sir Richard Branson er náinn samstarfsmaður Höllu Tómasdóttur á vettvangi …
Sir Richard Branson er náinn samstarfsmaður Höllu Tómasdóttur á vettvangi B-Team. mbl.is/AFP

Svívirðileg framganga

Eitt er að segja að menn ætli að gera þetta en að menn geri þetta eða ekki. Og þess vegna veltir maður fyrir sér hvernig þú hefur lyst á því að stilla þér upp við hlið manns sem gengur fram með þessum svívirðilega hætti?

„Af því að það er svo margt gott sem Richard gerir sem er gott þótt þótt hann sé ekki fullkominn maður frekar en ég og þú. En hann og Virgin-grúppan er að vinna að því að vinna í samræmi við leiðbeiningar okkar um skattalega meðferð.“

Gefur fjármuni til góðgerðamála

En ekki hann sjálfur.

„Jú, hann sjálfur líka og meira að segja er verið að því að hann ætli að láta sína fjármuni renna í auknum mæli til að láta gott af sér leið.“

Já en ekki skattgreiðslur til ríkisstjórna. Hann segist vera skattalegur útlagi.

„Ég veit ekki hvað þú ert að vísa í þarna en ég vil ítreka að ég fer ekki fyrir skattamálum eða persónulegri hegðun B-Team leiðtoga. Ég fer fyrir þessari sýn sem þessi hópur, 32 aðilar tala fyrir og við vitum að enginn í viðskiptalífinu er að gera nóg eða nógu vel. En við erum að reyna að færa viðmiðin og gera betur.“

En þetta skiptir máli því þetta er stundum kallað vegprestar því þeir vísa veginn en fara hann ekki sjálfir.

„Já, það er ekki gott og það er alltof mikið af því og ég er fyrsta manneskjan til að segja það.“

Branson á fleiri tengingar við forsetaembættið en frambjóðandann Höllu Tómasdóttur. …
Branson á fleiri tengingar við forsetaembættið en frambjóðandann Höllu Tómasdóttur. Dorrit Moussaieff, eiginkona Ólafs Ragnars Grímssonar og Richard Branson eru góðvinir til margra ára. Samsett mynd

Líðan unga fólksins skiptir máli

En þetta skiptir sértaklega máli varðandi forsetaembættið því þar eru menn að vísa veginn. Þú talar mikið um að forsetinn eigi að veita leiðsögn í mikilvægum málefnum sem varða heilbrigðismál barna, skjátíma barna og fleira og fleira, vanlíðan barna.

„Já, mér er umhugað um andlega líðan unga fólksins og líka eldra fólksins sem segir okkur í auknum mæli segi að þeim finnist þau vera afskipt. Og ég held að það að fyrirtæki greiði skatta þar sem þau starfa sé ákaflega mikilvægur þáttur í því að hafa fjármagn til að byggja upp heilbrigðiskerfi, að styðja við geðheilbrigði, til að styðja við heilbrigði í samfélaginu og ég vísa þeim sem hafa áhuga á að lesa skattaleiðbeiningar B-Team sem er það sem við hvetjum til.“

Ég hef lesið þær og allt áhugavert sem þar kemur fram. En muntu þá, ef þú verður kjörin forseti, bjóða Branson á Bessastaði og segja heyrðu, þú þarft nú að fara að borga þína skatta eins og við hin.

„Ég hef átt brjálæðislega mörg og erfið samtöl við Branson um þessi mál og Branson og Virgin-grúppan eru að vinna í þessum málum.“

Viðtalið við Höllu Tómasdóttur má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert