Ísraelsher virðist hafa framið stríðsglæp

Frá Vesturbakkanum. Mynd úr safni.
Frá Vesturbakkanum. Mynd úr safni. AFP/Ahmad Gharabli

Ísraelsher virðist hafa framið stríðsglæp þegar hermenn skutu ungan palestínskan dreng til bana á Vesturbakkanum þann 29. nóvember á síðasta ári. 

Þetta telur Ben Saul, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi og hryðjuverkavarnir, eftir að hafa farið yfir gögn sem rannsóknarblaðamenn BBC, Isobel Yeung, Josh Baker og Sara Obeidat, komust yfir.

Tveir drengir voru skotnir til bana. Adam sem var átta ára gamall og Basil sem var fimmtán ára.

Ísraelsher sagði atburðarásina vera til skoðunar en tók þó fram að skotvopn væru einungis notuð til að bregðast við skyndilegri hættu eða til að handtaka þá sem færu ekki eftir fyrirmælum og að í þessu væri hermönnum nauðugur einn kostur.

Reyndu að forða sér undan

Samkvæmt þeirri atburðarás sem blaðamenn BBC hafa sett fram voru Basil og Adam úti á götu ásamt sjö palestínskum drengjum þegar ísraelskir hermenn keyrðu fram hjá.

Adam stóð við hlið bróður síns Baha, sem er 14 ára, þegar bílalest Ísraelshers beygði fyrir horn og stefndi í átt að drengjunum níu.

Óróleika mátti greina hjá drengjunum á því myndefni sem til er af atburðinum. Byrjuðu nokkrir þeirra að forða sér undan. 

Ellefu skotum hleypt af

Ökumaður fremsta ökutækisins opnaði dyrnar og er greinilegt að hann sá drengina vel frá því sjónarhorni.

Basil var nær ökutækinu en Adam, en samkvæmt útreikningum BBC skildu 12 metrar þá að.

Því næst var ellefu skotum hleypt af. Átta skot hæfðu bifreiðar og mannvirki en þrjú þeirra hæfðu drengina tvo og hlutu þeir bana af.

Hermaður skaut Basil, sem stóð andspænis bílalestinni, tvisvar í bringuna.

Adam sneri baki í bílalestina og var á hlaupum frá henni þegar hermaður skaut hann í höfuðið.

Saka drengina um að hafa verið með sprengiefni

Ísraelsher segir drengina tvo hafa verið í þann mund að kasta sprengiefni í átt að hermönnum og þannig sett þá í mikla og skyndilega hættu. Þess vegna hefðu hermennirnir brugðist við með því að skjóta drengina.

Hefur herinn deilt myndefni með BBC af því sem Ísraelar segja vera sprengiefni á vettvangi.

Adam vafalaust óvopnaður

Samkvæmt öllu því myndefni sem BBC hefur komist yfir og grandskoðað var Adam ekki vopnaður þegar hann var skotinn til bana í höfuðið.

Ekki hefur þó tekist að bera kennsl á hlut sem hinn fimmtán ára Basil hélt um rétt áður en hann var skotinn. Segir Ísraelsher að um sprengibúnað hafi verið að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert