Hneyksli skekur lögregluna í Svíþjóð

Þrjátíu lögreglumenn eru sagðir hafa lekið upplýsingum til glæpagengja.
Þrjátíu lögreglumenn eru sagðir hafa lekið upplýsingum til glæpagengja. AFP/Adam IHSE/TT fréttastofa

Hneyksli skekur lögregluna í Svíþjóð í kjölfar þess að minnst 514 dæmi eru um að upplýsingum hafi verið lekið frá lögreglu til glæpamanna frá árinu 2018. Um er að ræða 30 lögreglumenn sem grunaðir eru í málinu. Þeir hafa ýmist sagt starfi sínu lausu eða verið leystir frá störfum. 

Þetta kemur fram í fréttaröð frá Dagens Nyheder. Þar segir glæpamenn hafi beitt ýmsum leiðum til að fá upplýsingar frá lögreglumönnunum. Meðal annars að stofna til ástarsambanda með starfsmönnum lögreglu í þeim eina tilgangi að reyna að fá upplýsingar sem nýst geta glæpagengjum.

Segir jafnframt fjöldi gengjameðlima hafi náð að sannfæra lögreglumenn um að veita upplýsingar í té vegna fjölskyldutengsla.   

Veitti ástmanni upplýsingar í fjögur ár

Í fyrstu grein Dagens Nyheder segir frá lögreglukonu Elin [dulnefni] sem hittir mann að nafni Jonas [dulnefni] á stefnumótaforritinu Tinder á loka ári sínu í lögregluskólanum. Með þeim tókust ástir og segir að hún hafi ítrekað komið ástmanni sínum til hjálpar vitandi vits að hann væri til rannsóknar hjá lögreglu. 

Er hún sökuð um að hafa á fjögurra ára tímabili leitað að upplýsingum í kerfi lögreglunnar sem vörpuðu ljósi á það hvar lögregla væri stödd með glæparannsóknina. 

Veitti upplýsingar um alræmdan glæpamann

Fjölmörg önnur dæmi eru tekin. Landamæravörður er sakaður um að hafa selt upplýsingar til glæpagengja. Þá er rannsóknarlögreglumaður sagður hafa lekið upplýsingum um rannsókn á einum alræmdasta glæpamanni Svíþjóðar. Eins er sagt frá konu sem var í ástarsambandi við mann sem var til rannsóknar í deild sem hún starfaði í.

Þá eru fimm lögreglumenn sagðir hafa leitað óvenju oft eftir upplýsingum um meðlimi Hells Angels í kerfi lögreglunnar. Við nánari athugun fundust náin tengsl þeirra við mótorhjólagengið. 

Morð sögð tengjast lekunum 

Í sumum tilfellum leiddi upplýsingagjöf lögreglumanna til hefndaraðgerða gegn óvinum í gengjaheiminum. Jafnvel eru dæmi um að gengjameðlimir hafi horfið sporlaust, hugsanlega verið myrtir, í kjölfar upplýsingagjafar lögreglumanna.

Gengjastríð hafa sett svip sinn á sænskt samfélag.
Gengjastríð hafa sett svip sinn á sænskt samfélag. AFP

Nokkrir lögreglumannanna hafa þegar hlotið sekt vegna brota á reglum um upplýsingagjöf. Aðrir hafa sloppið þar sem ekki þóttu nægjanlegar sannanir fyrir brotum þeirra. Allir þrjátíu hafa þó verið leystir frá störfum og gætu átt málsókn yfir höfði sér. 

Í frétt Dagens Nyheder segir að algengast hafi verið að lögreglumenn hafi veitt upplýsingar eftir að þeir hafi mátt sæta kúgun frá glæpamönnum. T.a.m. er dæmi þess að lögreglumaður hafi verið myndaður við kaup á eiturlyfjum. 

Stilltu Tinder á lögregluskólann 

Haft er eftir Jonasi í samtali við Dagens Nyheder að auðvelt geti verið að stofna til sambanda með lögreglumönnum og konum. Er það gert með því að velja svæði á stefnumótaforri á borð við Tinder sem eingöngu nær til þeirra sem eru í návist við lögregluskóla. Í framhaldinu er svo sá lögreglunemandi sem gengjameðlimur nær sambandi við borinn saman við lista af fólki sem sækir skólann.

Lögreglan með mesta traustið

Málið þykir mikið reiðarslag fyrir ímynd lögreglunnar. Nýtur hún traust 72% landsmanna samkvæmt nýlegri könnun og trónir þar á toppnum af öllum ríkisstofnunum.

Þá þykir málið bera vitni um að skipulögð glæpasamtök hafi í fyrsta skipti svo vitað séð náð að smygla sér inn í lögregluliðið með einum eða öðrum hætti. 

Ulf Kristiansen, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Ulf Kristiansen, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Ulf Kristiansen, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í gær að málið væri mikið áfall og til þess fallið að grafa undan trausti á lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert