„Þær eru betri en við í körfu“

Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar
Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar mbl.is/Kristinn Magnússon
Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar var stoltur af sínum leikmönnum þrátt fyrir stórt tap gegn Keflavík í dag. Spurður út í gríðarleg kaflaskil Stjörnunnar milli fyrri og seinni hálfleiks sagði Arnar þetta:

"Þær herða tökin í síðari hálfleik, þær fara í léttari uppstillingu, skipta öllum dekkunum, þær skjóta mikið úr vítum en við ekki og þær fara mjög illa með okkur í sóknarfráköstum. Það er svona mín tilfinning strax eftir leik að hafi breyst á milli fyrri og seinni hálfleiks."

Þið vinnið fyrsta leikhluta með 10 stigum, gerið jafntefli í öðrum leikhluta, tapið þriðja leikhluta með 19 stigum og fjórða leikhluta aftur með 19 stigum. Það hlýtur að teljast algjör brotlending ekki satt?

"Já og nei. Keflavík eru betri en við. Það gefur augaleið. Þær eiga líklega þrjár stelpur sem myndu byrja inn á í A-landsliði kvenna. Þær eiga tvær í viðbót sem væru líklega í A-landsliði kvenna. Sara var reyndar meidd held ég þannig að þær voru með fjórar. Við erum ekki með landsliðsmenn í A-landsliðinu. Síðan eru þær með hæfileikaríka útlendinga“.
Ísold Sævarsdóttir leikmaður Stjörnunnar
Ísold Sævarsdóttir leikmaður Stjörnunnar Arnþór Birkisson


„Þær eru betri en við í körfu. Þannig að brotlending eða ekki brotlending. Ég er rosalega stoltur af frammistöðunni. Við þurfum að læra helling af hlutum og læra af þessari seríu. Þær voru 28 stigum betri en við í dag þó við höfum verið yfir á einhverjum tímapunkti.“

Við erum með 5 eða 6 stelpur í u-18 ára landsliðinu, allar á yngra ári. Við erum með selpu í u-16 landsliðinu. Þær eru með hálft A-landsliðið. Þannig að það væri óeðlilegt ef við værum betri en þær í körfubolta. Þá væri verið að velja furðulega í þessi landslið".

Þannig að það vantaði reynslu til sækja úrslit hér í dag?

"Já reynslu, þroska og að verða betri í körfu. Það er hellingur sem við þurfum að verða betri í. Það kemur. Við þurfum samt að spila betur á miðvikudaginn. VIð þurfum að sýna þroska og að sýna að við lærum frá leik til leiks“.

„Haukaserían var gott dæmi um það. Mér fannst við læra meira eftir því sem leið á seríuna. Ég er samt ekki að segja að við séum að fara vinna Keflavík í oddaleik hérna eftir tvær vikur en við þurfum að taka skref áfram. Það er það sem þetta snýst um. Við erum með yngri flokka lið hérna í meistaraflokkskeppni í undanúrslitum þannig að það væri ljóta helvítið ef Keflavík væri ekki svolítið góðar með þetta lið."

Markmiðið fyrir næsta leik er þá?

"Læra af þessum leik. Laga hluti sem voru ekki nógu góðir. Við verðum að bregðast betur við núna því þetta er alltaf sama uppskriftin. Þegar Keflavík gengur illa þá koma þær agressívar út. Það gera þær alltaf og hafa alltaf gert á meðan sum lið bregðast öðruvísi við og bakka kannski niður en þær ráðast á þig. Það er okkar að finna leiðir í gegnum það". sagði Arnar í samtali við mbl.is.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka