Byrjaði með 20 árum eldri manni og er á bömmer því hann er orðinn svo gamall

Theodor Francis Birgisson ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands.
Theodor Francis Birgisson ráðgjafi svarar spurningum lesenda Smartlands. Samsett mynd

Theodor Francis Birgisson klín­ísk­ur fé­lags­ráðgjafi hjá Lausn­inni svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurningu frá konu sem veit ekki alveg hvað hún á að gera því henni finnst maðurinn hennar vera orðinn svo gamall.  

Sæll Theodor 

Ég kynntist manninum mínum þegar ég var 29 ára en hann er tuttugu árum eldri en ég. Fyrst var aldursmunurinn ekki áþreifanlegur en nú er ég að verða fertug og hann sextugur og mér finnst hann vera orðinn svo gamall. Bæði í útliti og háttalagi. Hann sofnar snemma og er hættur að nenna að gera spennandi hluti með mér. Hann kemur vel fram við mig, við búum við fjárhagslegt öryggi og erum góðir vinir, en samt. Hann er bara eitthvað svo gamall. Ég er hins vegar í mínu besta formi og vil fá sem mest út úr lífinu. Hvað á ég að gera? 

Kveðja, 

Ein ung 

Vadim Paripa/Unsplash

Sæl og blessuð og takk fyrir þessa spurningu.

Hér er mikilvægasta spurningin í þessu samhengi „hvað viltu gera“? Viltu enda sambandið við hann eða viltu vera áfram með honum? Og ef þú vilt vera með honum, viltu þá vera í óbreyttu sambandi eða viltu að sambandið breytist? Okkur hættir mjög til að skilgreina aldur út frá kennitölu en aldur snýst miklu meira um heilsu en árafjölda.

Það að hann er mun eldri en þú þýðir ekki að þið getið ekki látið sambandið vera ánægjulegra fyrir ykkur bæði. Ef hann hefur heilsu til að gera spennandi hluti þá þarf hann að svara því af hverju hann nennir því ekki. Þið þurfið að setjast niður og tala um hvað hvort ykkar vill fá út úr sambandinu og ef það er haf og himinn á milli væntinga ykkar þá þurfið þið að finna út úr því hvort þið viljið vinna að því að finna einhvern milliveg.

Stundum er gott að spegla þannig kringumstæður með fagaðila. Þegar öllu er á botnin hvolft þá er það að elska eingöngu spurning um ákvörðun. Það eru erfiðir tímar og erfiðar samræður í öllum parsamböndum. Annað er óhjákvæmilegt. Hjá ykkur eins og okkur öllum er þetta bara spurning um hvort þið viljið finna sameiginlegan flöt til að gera sambandið ykkar betra. Ég er ekki að gera lítið úr tilfinningum þínum varðandi aldursmun, það er talsverður munur á aldri ykkar, en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að finna leið til að báðum líði vel. 

Ég vona að þetta hjálpi.

Kær kveðja,

Theodor 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodor spurningu HÉR. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál