„Byggja varnargarð utan um fólkið okkar“

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar.
Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar, segir að dagurinn marki ákveðin tímamót fyrir Grindvíkinga en samþykkt var á ríkisstjórnarfundi að stofna sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkurbæjar vegna jarðhræringanna og áhrifa þeirra á byggð og samfélag.

Í dag eru 175 dagar liðnir frá því Grindvíkum var gert að rýma bæinn vegna náttúruhamfaranna í og kringum bæinn og framtíð byggðarinnar er í mikilli óvissu. Ásrún segir bæjarstjórnina verða í baráttuhug og mikilvægt sé að halda í bjartsýnina og vonina.

„Ég horfi brött og bjartsýn fram á veginn,“ sagði Ásrún við mbl.is eftir fréttamannafund í Safnhúsinu í dag þar sem Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra greindi frá frumvarpinu um að stofa sérstaka framkvæmdanefnd um málefni Grindavíkur.

Fannst mikilvægt að óska eftir samtalinu

Hvers vegna óskaði bæjarstjórn Grindavíkur eftir samstarfi við ríkisvaldið um tilhögun og stjórnarfyrirkomulag verkefna vegna jarðhræringanna?

„Við sáum fram á það að þessir atburðir yrðu lengri heldur en við vonuðumst eftir og þá fannst okkur mikilvægt að óska eftir þessu samtali við stjórnvöld. Þetta er eitthvað sem engin sveitarstjórn eða starfsmenn eins sveitarfélags geta tekist á við,“ segir Ásrún.

Bæjarstjórn Grindavíkur mun áfram fara með stjórn sveitarfélagsins, starfsmannahaldið og bera ábyrgð á og hafa fullt fjárstjórnarvald yfir lögbundnum og ólögbundnum verkefnum.

Ásrún segir að bæjarstjórnin hafi verið í samstarfi við ríkisstjórnina og að margt gott hafi verið gert frá því atburðarrásin hófst þann 10 .nóvember á síðasta ári.

„Ég bind vonir við að framkvæmdanefndin nái að vinna vel úr þeim mörgu krefjandi verkefnum sem framundan eru. Samstarfið við stjórnvöld hefur verið mjög gott síðustu vikur og þau hafa tekið tillit til okkar athugasemda.“

Fólki líður auðvitað ekki vel

Spurð hvernig hún skynji andann í íbúum Grindavíkur sem margir hverjir eru reiðir og pirraðir vegna seinagangs og ákveðins úrræðaleysis segir Ásrún:

„Fólki líður auðvitað ekki vel enda er þetta mikið áfall sem það er að takast á við sem erfitt er að vinna úr. Við þurfum að byggja varnargarð utan um fólkið okkar og það kemur mjög sterkt fram í frumvarpinu að það þarf að taka utan um fólkið og vinna með það.“

Ástrún segir að ef Grindvíkingar séu þekktir fyrir eitthvað þá sé það seigla.

„Ég vil brýna fyrir íbúum Grindavíkur að við stöndum saman í þessari krefjandi baráttu. Það er áfram baráttuhugur í bæjarstjórninni og við munum vinna að hlutunum með samvinnu. Frumvarpið er stórt skref í þátt að vinna að farsæld Grindvíkinga óháð búsetu þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert