Tvennt talið líklegast: Hraun gæti farið yfir garða

Horft yfir kraumandi gíginn fyrr í vikunni.
Horft yfir kraumandi gíginn fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hraun úr eldgosinu við Sundhnúkagíga hefur undanfarnar vikur hlaðist upp við varnargarða austan Grindavíkur. Ef kraftur gossins eykst eða nýjar sprungur opnast suður af núverandi gosopi, þarf að gera ráð fyrir framrás hraunjaðarsins við varnargarða austan Grindavíkur.

Þetta kemur fram í nýrri færslu vísindamanna á vef Veðurstofu Íslands.

Á laugardag fór lítil hrauntunga yfir varnargarð austan Grindavíkur. Talin er hætta á að slíkum tilfellum fjölgi, ef kraftur gossins eykst á ný.

Nýjar sprungur eða aukin virkni

Tvennt er talið líklegast hvað varðar framhaldið, eins og segir á vef Veðurstofunnar:

  1. Nýjar gossprungur opnast á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells og/eða núverandi gosop stækkar vegna skyndilegrar aukningar í hraunflæði sem gæti orðið sambærilegt við upphafsfasa síðustu eldgosa á svæðinu. Það gæti gerst með mjög stuttum eða engum fyrirvara.
  2. Einnig er mögulegt að kvikuflæði úr kvikuhólfinu undir Svartsengi yfir í virka gíginn á Sundhnúkagígaröðinni fari að aukast jafnt og þétt þar til að jafnvægi verði á milli innstreymi kviku inn í kvikuhólfið og útstreymis þaðan og uppá yfirborð.

Merki um nýtt kvikuhlaup væru eins og áður afar skyndileg og áköf smáskjálftahrina í og við kvikuganginn og landsig í Svartsengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert