Sólarsellur verði á 10 til 20% íslenskra þaka

Sólarsellur í Frakklandi.
Sólarsellur í Frakklandi. AFP

Fara mætti í sérstakt átak og setja upp hvata eða ívilnanir fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að setja upp sólarsellur, eins og gert hefur verið í mörgum nágrannalöndum okkar.

Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um aðra orkukosti, sem var birt á þriðjudaginn. 

Hópurinn gerir ráð fyrir að sólarorka verði orðinn samkeppnishæfur valkostur til raforkuframleiðslu á Íslandi innan þriggja til fimm ára, samhliða verðhækkunum á raforku og lækkandi verði á sólarsellum, ásamt tækniframförum varðandi nýtni sólarsella.

„Um er að ræða sannreynda tækni, sem nýtt hefur verið í öðrum löndum með góðum árangri. Starfshópurinn telur að með nýtingu sólarorku megi auka nokkuð orkuframleiðslu hérlendis og telur mikilvægt að móta stefnu og umgjörð fyrir slíka nýtingu, endurskoða löggjöf og huga að hvötum til aukinnar nýtingar,” segir í niðurstöðu starfshópsins.

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi.
Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi. mbl.is/Kristinn Magnússon

400 gígawattsstundir

Stefna ætti að því að árið 2040 verði árleg orkuframleiðsla með sólarorku komin upp í 400 gígawattsstundir, sem er um 2% af orkunotkun ársins 2022. Af þessum 400 gígawattsstundum er áætlað að um helmingurinn verði framleiddur af heimilum, fyrirtækjum og stofnunum. Hinn helmingurinn komi frá stærri sólarorkuverum, líkt og reyndin hefur verið víða erlendis.

Með hliðsjón af þessu telur starfshópurinn ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að sólarsellur verði komnar á um 10-20% þakflata á Íslandi árið 2040 og að þær muni framleiða a.m.k. 200 gígawattsstundir á ári.

Fjöldi sólarorkuvera í nágrenni Íslands

Áætlað er að á hverjum einum og hálfum klukkutíma falli nægt sólarljós á jörðina til að framleiða orku sem getur mætt orkuþörf heimsins í heilt ár. Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) spáir því að árið 2027 muni uppsett afl sólarorku í heiminum þrefaldast frá 2022 og þá muni um 22% af raforkuframleiðslu á heimsvísu koma frá sólarorku.

Bent er á í skýrslunni að fjöldi sólarorkuvera hafi verið settur upp á norðlægum svæðum í nágrenni við Ísland síðastliðin ár. Danmörk og Svíþjóð hafi bæði verið með yfir 2.500 MW í uppsettu afli af sólarorku árið 2022, Finnland með tæplega 600 MW og Noregur um 320 MW.

Einnig kemur fram að uppsetning á sólarsellum á húsþökum, sem jafnframt séu samtengdar við dreifikerfi raforku, sé orðin tæknilega einföld. Víða erlendis sé hægt að kaupa sólarsellur á einfaldan hátt í verslunum á borð við IKEA.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á blaðamannafundi á …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á blaðamannafundi á þriðjudaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rúm millón fyrir hvert hús

„Gróflega má áætla að 10 kW sólarsellur uppsettar á húsi á Íslandi kosti rúmlega eina milljón kr., en slíkar sellur ættu að endast í yfir 20 ár, enda er algengt að þær séu seldar með 25 ára ábyrgð frá framleiðenda. Ársframleiðslan hérlendis hjá 10 kW sólarsellum á hefðbundnu húsþaki gæti verið um 5-10 þúsund kWst, sem þýðir að endurgreiðslutíminn væri frekar langur með sölu inn á dreifikerfið. Ef framleiðslan færi hins vegar öll í eigin notkun, þ.e. spöruð raforkukaup, sem væri 15-20 kr./kWst (eftir sölu og dreifingaraðila), þá gæti endurgreiðslutíminn verið ásættanlegur í einhverjum tilvikum,” segir jafnframt í skýrslunni.

Þó er gert ráð fyrir því að bæði einstaklingar og fyrirtæki sjái sér hag í því, til dæmis af umhverfisástæðum eða sem hluta af markaðssetningu, að fjárfesta í sólarsellum til að framleiða eigin orku þótt það skili ekki fjárhagslegum ávinningi fyrr en eftir langan tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert