Bregðast við vopnahléstillögu á morgun

Horft yfir Nuseirat á miðri Gasaströndinni. Ísraelsher gerði þar árásir …
Horft yfir Nuseirat á miðri Gasaströndinni. Ísraelsher gerði þar árásir í gær. AFP

Háttsettur embættismaður innan raða hryðjuverkasamtakanna Hamas greinir AFP-fréttaveitunni frá því að brugðist verði við tillögu Ísraels um vopnahlé á Gasa á morgun í Egyptalandi. 

Sendinefnd Hamas undir stjórn Khalil al-Hayya, vara­for­seta póli­tíska hluta Ham­as, mun fara til Egyptalands á morgun og greina frá viðbrögðum samtakanna við vopnahléstillögu Ísraels á fundi nefndarinnar með egypskum embættismönnum.

Annar heimildarmaður AFP sagði að samtökin væru opin fyrir því að ræða tillöguna, sem virðist vera jákvæð þróun.

Í vikunni fór sendinefnd Egypta til Ísraels til þess að koma viðræðum á skrið. 

Egypt­ar, Kat­ar­ar og Banda­ríkja­menn hafa reynt með milli­göngu að koma á vopna­hléi frá því að átök­in hóf­ust 7. októ­ber. Í nóv­em­ber náðist vopna­hlé sem stóð yfir í viku. Þá voru 80 ísra­elsk­ir gísl­ar látn­ir laus­ir og 240 Palestínu­menn látn­ir laus­ir úr ísra­elsk­um fang­els­um. 

Nú virðist þó hafa orðið framfarir í viðræðum um vopnahlé og lausn gísla á Gasa síðustu daga. 

Fyrsta sinn tilbúnir að ræða stríðslok

Bandaríski fjölmiðilinn Axios hefur eftir tveimur ísraelskum embættismönnum að tillaga þeirra felist í vilja til þess að ræða sjálfbæran frið á Gasa eftir lausn gísla. 

Samkvæmt Axios er þetta í fyrsta sinn síðan stríðið hófst sem ísraelskir leiðtogar hafa gefið það í skyn að þeir séu tilbúnir til þess að ræða endalok stríðsins. 

1.170 manns lét­ust í hryðju­verka­árás Ham­as 7. októ­ber. Ísra­els­menn telja að 129 séu enn í haldi Ham­as á Gasa, 34 þeirra eru tald­ir látn­ir. 

Rúm­lega 34 þúsund Palestínu­menn hafa lát­ist á Gasa frá því að stríðið hófst, að sögn Ham­as.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert