„Ófrjósemi er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum“

Fjóla Dögg Helgadóttir er doktor í klínískri sálfræði.
Fjóla Dögg Helgadóttir er doktor í klínískri sálfræði.

Ný­verið var óskað eft­ir þátt­tak­end­um í rann­sókn sem unnið er að um þess­ar mund­ir við Há­skól­ann í Reykja­vík þar sem áhrif hug­rænn­ar at­ferl­is­meðferðar (HAM), sem veitt er í gegn­um in­ter­netið, á kvíða, streitu og/​eða þung­lyndi eru könnuð hjá kon­um með frjó­sem­is­vanda.

Rann­sókn­in er hluti af meist­ara­verk­efni Sig­ur­birnu Hafliðadótt­ur í klín­ískri sál­fræði og er fram­kvæmd af henni und­ir hand­leiðslu Dr. Fjólu Daggar Helga­dótt­ur og Dr. Magnúsar Blöndahl Sig­hvats­sonar. 

Prófaði ýmislegt áður en hún fann sálfræðina

Fjóla er doktor í klínískri sálfræði og jafnframt ábyrgðarmaður rannsóknarinnar. Hún starfar á eigin sálfræðistofum, vinnur í rannsóknum og kennslu í samstarfi við fjölda háskóla og er eigandi AI-Therapy sem gefur út Overcome Fertility Stress (OFS) meðferðarforritið sem notað er í rannsókninni.

Fjóla byrjaði í sálfræðinámi við Háskóla Íslands árið 2001 og hefur síðan þá klárað fjórar sálfræðigráður. Leið hennar lá þó ekki alltaf þangað, en hún prófaði ýmsar mismunandi námsleiðir áður en hún fann sig í sálfræðinni. 

„Ég fór í Versló og einhvern veginn á þeim árum kom mjög takmarkað til greina – viðskipta- eða hagfræði, lögfræði eða læknisfræði. Þannig ég hélt að mig langaði til að vera geðlæknir þar sem ég hafði áhuga á geðheilsu,“ segir Fjóla, en að loknu stúdentsprófi hellti hún sér yfir læknisfræðilestur og stefndi á geðlækninn. 

Þegar fór að hausta áttaði Fjóla sig hins vegar á því að hún hefði lítinn áhuga á raungreinum eins og eðlisfræði og þótti það eina áhugaverða sem hún hafði lesið yfir sumarið vera sálfræðin. Eftir miklar samræður fram og til baka, meðal annars við námsráðgjafa, ákvað hún að skella sér í félagsráðgjöf. 

„Ég kláraði fyrstu önnina, en áfangarnir voru þannig settir upp að allir megin kúrsarnir í sálfræði voru hluti af náminu í félagsráðgjöf. Um jólin ákvað ég hins vegar að félagsráðgjöfin væri ekki málið. Ég tók u-beygju og skráði mig í tölvurekstrarfræði við Háskóla Íslands, en eftir eina önn áttaði ég mig á að tölvurekstrarfræðin væri of þurr fyrir mig,“ segir Fjóla, en í kjölfarið skráði hún sig í sálfræðinám og hefur verið mjög sátt við það val síðan.

„Undanfarin ár hef ég verið að gera upp líf mitt eins og svo margir á Covid-tímunum. Fram að þessu hef ég helst viljað deila öllum mínum sigrum og afrekum, en nú er ég að æfa mig að tala líka um hlutina eins og þeir eru. Ég átti ansi átakanlega barnæsku og út frá því er eiginlega alveg augljóst af hverju ég endaði svo í klínískri sálfræði,“ segir Fjóla.

„Þegar við fórum að reyna að eignast börn var bara ekkert að frétta“

Aðspurð segist Fjóla hafa ákveðið að rannsaka frjósemisvanda kvenna vegna eigin reynslu af ófrjósemi. „Þegar ég var á aldrinum 20-30 ára var í rauninni allt á stöðugri uppleið. Ég kláraði Versló, kláraði sálfræðina í Háskóla Íslands, komst inn í framhaldsnámið í Ástralíu sem mig hafði dreymt um, fékk fullan skólastyrk fyrir öllu doktorsnáminu, hlaut verðlaun fyrir doktorsverkefnið mitt og fékk svo draumastarfið mitt við Oxford háskóla að námi loknu,“ segir hún. 

Fjóla segist framan af hafa verið manneskja sem hafi ekki ætlað að eignast börn, en það breyttist allt eftir að hún kynntist manninum sínum. „Ég kynntist besta manni veraldar, við giftum okkur og tókum svo sex mánaða brúðkaupsferð. En svo þegar við fórum að reyna að eignast börn þá var bara ekkert að frétta. Vanmátturinn og áhrifin sem þessi vandi hafði á okkur var gífurlegur, miklu meiri heldur en ég hafði ímyndað mér,“ útskýrir hún. 

„Við bjuggum í Oxford meðan á þessu stóð og undir lokin þá var ég orðin svo einöngruð og hætt að geta komið heim til Íslands þar sem pressan þar var mest með spurningar um barneignir. Ég velti svo oft fyrir mér, af hverju er þetta það eina sem fólk vill tala við mig um?“ bætir hún við. 

Fjóla átti erfitt með að trúa hve djúpstæð áhrif frjósemisvandinn hafði á hana. „Þetta var ákaflega einmanalegt ferli og það er svo auðvelt að fara í einhverjar sjálfsásakanir í kjölfarið. En þegar ég fór að nota HAM á sjálfri mér og nota aðferðirnar sem kenndar eru í prógramminu fannst mér ótrúlegt hvað það létti á. Ég var með verkfæri í höndunum til að láta sálfræðilega hluta vandamálsins ekki skerða lífsægði mín lengur,“ bætir hún við.

„Ég hef persónulega gengið í gegnum alls konar mjög átakanlegt í lífinu, en það að geta ekki eignast börn er það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum,“ segir Fjóla.

Of mikið af „töfralausnum“ sem gefi falskar vonir

Fjóla segir því miður vera of mikið af „töfralausnum“ sem gefi falskar vonir og geri ferli sem er fyrir mjög erfitt, enn erfiðara, og því séu rannsóknir sem þessi afar mikilvægar. „Frjósemisvandi er svo ólíkur öðrum vandamálum þar sem hann virðist rista ansi djúpt, enda virðist þróunarkenningin vera  við völd og það að fjölga okkur er náttúrulega skrifað inn í DNA-ið okkar,“ útskýrir hún.

„Þegar fólk gengur í gegnum frjósemisvanda er nóg að „ráðum“ í hversdagsumræðu og á internetinu. Gallinn er þó að ekki er augljóst hverju skjal fylgja. Besta leiðin til að vita hvað er gagnlegt og hvað ekki er að skoða hvaða aðferðir hefur verið sýnt fram á að hafi verið gagnlegar í slembraðri samanburðarrannsókn (e. randomized controlled trial). Það er oft mikið mál að framkvæma þannig rannsókn þar sem það er mikið umfang og margar strangar reglur um hvernig þurfi að vinna þannig rannsóknir,“ bætir hún við. 

„Við framkvæmdum fyrstu rannsóknina á OFS árið 2020 og fengum mjög góðar niðurstöður þannig þetta er í raun skrefið sem þarf að taka til að geta sagt til um á óyggjandi hátt hvort að HAM á netinu gagnist raunverulega þeim sem kljást við frjósemisvanda. Í sumum mælingum eru tölurnar sláandi um hve margir þjást af klínískum kvíða og klínísku þunglyndi meðan á þessu ferli stendur,“ segir Fjóla.

Spurð hvers vegna ákveðið hafi verið að notast við HAM í rannsókninni frekar en aðra meðferðarkosti segir Fjóla það vera vegna þess hve vel HAM hefur verið rannsökuð.

„HAM er mest rannsakaða sálfræðimeðferðin og ekki er til nein aðferð innan sálfræðinnar sem hefur meiri stuðning með vísindalegum hætti. Þegar ég byrjaði að skrifa þetta prógramm hafði ég unnið í HAM rannsóknum í tíu ár og hafði unnið sem sálfræðingur notandi gangreyndar aðferðir, sem oftast er HAM, í sjö ár. Einnig hafa rannsóknir erlendis sýnt að HAM sé gagnlegt til að taka á frjósemisvanda,“ segir Fjóla.

Hægt er að lesa nán­ar um rann­sókn­ina og sækja um að taka þátt hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert