5 ráð þegar ferðast á með nýjum vini

Nýir vinir eða glæný pör þurfa að læra inn á …
Nýir vinir eða glæný pör þurfa að læra inn á hvert annað þegar farið er í ferðalag. mbl.is

Á ferðalögum er margt sem getur komið upp á. Stundum þegar maður er að ferðast með einhverjum sem maður þekkir kannski ekki mjög vel, nýjum kærasta eða vini sem maður hefur aldrei ferðast með áður, þá geta skapast óþægilegar kringumstæður. Til að fyrirbyggja allt slíkt er gott að hafa eftirfarandi í huga:

1. Setið skýr viðmið um kostnað

Það er alltaf skynsamlegt að áætla kostnað við ferðalagið, hvort sem þið hafið verið lengi saman eða ekki. Það þarf að koma skýrt fram hvað þið eruð reiðubúin til þess að leggja í ferðalagið. Hvort þið viljið lifa hátt eða halda ykkur á jörðinni og eiga jafnvel fyrir mat þegar heim er komið. Það að ræða málin, hjálpast að með að bóka hótel og annað því tengt setur tóninn fyrir ferðalagið. 

2. Skipta með ykkur verkum

Það þarf að huga að mörgu fyrir ferðalög og það er mikilvægt að þú og ferðafélaginn deilið ábyrgðinni. Þið þurfið að skipta með ykkur verkum og standa við þá verkaskiptingu. 

3. Ræðið um ferðastílinn ykkar

Það er gott að vita hvernig týpa hinn aðilinn er áður en lagt er af stað. Sumir ferðast bara með handfarangur aðrir töluvert meira. Sumir þurfa að sitja við gang, aðrir ekki. Eins ef þið ætlið að leigja bíl þá er gott að vita hvort hinum finnst gaman að keyra eða ekki. 

4. Skipuleggið ferðalagið fyrirfram

Það er nauðsynlegt að vita nokkurn veginn hvað þið ætlið að gera á ferðalaginu. Hvort þið ætlið í margar skoðunarferðir eða bara hanga á sundlaugarbakkanum. Það er ekkert verra en þegar annar er í stuði að fara á sem flest söfn en hinn vill bara liggja í sólbaði. Með því að ræða væntingar fyrirfram má koma í veg fyrir vonbrigði og reyna að gera málamiðlanir.

5. Gefið hvort öðru svigrúm

Það er mjög líklegt að þið eruð ekki vön að verja miklum tíma saman. Þess vegna er mjög mikilvægt að búa til tíma þar sem báðir aðilar geta verið einir um stund. Eins verður fólk að vera meðvitað og næmt fyrir því hvenær gott sé að taka hlé frá stöðugri samveru. Þó að þið séuð saman á ferðalagi þá þýðir það ekki að þið þurfið að vera saman öllum stundum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert