Eiginmaðurinn neitar að fara frá borði

Flestir vilja komast frá borði af og til og sjá …
Flestir vilja komast frá borði af og til og sjá eitthvað nýtt. En ekki allir! Unsplash.com/Ben O Bro

Kona leitar ráða hjá ferðaráðgjafa The Times um eiginmann sinn. Hann vill aldrei fara frá borði þegar skemmtiferðaskipið er í höfn.

Við hjónin erum dugleg að fara í skemmtiferðasiglingar. En það er einn vandi - hann vill aldrei fara frá borði þegar skipið er í höfn. Einu sinni náði ég að sannfæra hann að koma með mér í göngutúr þegar við stoppuðum í Gíbraltar og honum lá svo mikið á að komast aftur um borð í skipið að hann datt og handleggsbrotnaði. Og þá varð hann enn sannfærðari um að hann hefði rétt fyrir sér!

Ég er því alltaf ein á ferð þegar við erum í landi. Það væri alveg indælt ef hann kæmi með mér endrum og eins. Er ég kannski ekki að velja nógu spennandi staði?

Svar ráðgjafans:

Það myndi eflaust hjálpa að komast að því hvað það er sem hann brennur fyrir. Ef hann er áhugamaður um dýr þá er sniðugt að fara í siglingu um Galapagos-eyjarnar. Ef hann vill liggja á ströndinni þá er Bahamas og Karabíska hafið alveg tilvalið. Það hlýtur að vera einhver staður sem hann gæti hugsað sér að skoða.

Af hverju vill hann ekki vera í landi? Það er mjög sérstakt að sigla um heimsins höf en vilja ekki sjá löndin sem hann heimsækir. Hvað er hann að gera einn um borð í skipinu? Vonandi ekki eitthvað grunsamlegt eins og að hanga í spilakössum.

Þið verðið að ræða málin af hreinskilni og komast að einhverri málamiðlun. Kannski getur hann séð sér fært um að fara frá borði í annað hvert skipti sem skipið er við bryggju?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert