Foreldrarnir í Taílandi en börnin í Búrma

Inga Rós hefur farið víða með fjölskyldu sinni.
Inga Rós hefur farið víða með fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Inga Rós Antoníusdóttir veitt fátt skemmtilegra en að ferðast. Hún fór í þriggja mánaða bakpokaferðalagið með þremur yngstu börnum sínum fyrir þremur árum og í febrúar liggur leið fjölskyldunnar til Marokkó. Inga Rós sagði Ferðavef mbl.is frá því sem stendur upp úr frá fjölbreyttum ferðalögum þeirra en þau hafa lent í ýmsum uppákomum. 

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Eftirminnilegasta ferðalagið er án efa þriggja mánaða bakpokaferðalag sem við hjónin fórum í með þremur yngstu börnunum okkar um Suðaustur-Asíu haustið 2016. Við héldum út í óvissuna með staka miða til Bangkok og þvældumst svo um Taíland, Kambódíu og Víetnam með lestum, rútum, hjólum og tuk-tukum og lentum í ógleymanlegum ævintýrum á leiðinni. Syntum með fílum í frumskóginum og bjuggum meðal annars í viku á eyðieyju við strendur Kambódíu þar sem hvorki eru vegir né rafmagn, hjóluðum um sveitir Víetnam og köfuðum með hákörlum og skjaldbökum í Taílandi. Þessi lönd eru ofboðslega falleg en fátæktin er einnig gífurleg og saga Kambódíu og Víetnam blóði drifin. Það var því ekki síður lærdómsríkt að kynnast sögu og menningu landanna betur og er óhætt að segja að heimsókn okkar á „Killing Fields“ og S21-fangelsið í Kambódíu hafi markað okkur varanlega,“ segir Inga Rós. 

Börnin með farangurinn á bakinu.
Börnin með farangurinn á bakinu. Ljósmynd/Aðsend
Fílar urðu á vegi fjölskyldunnar á ferðalagi.
Fílar urðu á vegi fjölskyldunnar á ferðalagi. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Sem betur fer er flest fólk heimsins gott fólk sem vill öðrum vel og ég tel mig aldrei hafa verið í neinni raunverulegri hættu. Hins vegar hef ég lent í nokkrum ævintýralegum uppákomum sem rata í sögubækurnar. Í Norður-Taílandi leigðum við okkur bíl í einn dag til að aka um sveitirnar. Á þröngum sveitavegi mættum við þungvopnuðum mönnum sem stöðvuðu okkur og gáfu sig á tal við okkur. Ekki reyndist það þó auðvelt þar sem þeir töluðu eingöngu taílensku og taílenskukunnátta okkar einskorðaðist við að geta boðið góðan daginn og þakkað fyrir okkur. Við gátum þó komið þeim í skilning um að við fjölskyldan hefðum nú bara ætlað að rúnta um á þessu svæði og aka þennan sveitaveg á enda og svo til baka. Þeir horfðu forviða hver á annan, ypptu öxlum, hlógu svo að okkur og hleyptu okkur í gegn. Ekki komumst við þó langt vegna ástand vegarins og snerum við þá við og áttuðum okkur um leið á því að skv. Google Maps vorum við fullorðna fólkið frammi í bílnum í Taílandi en börnin aftur í hins vegar í Búrma!“

Fjölskyldan í Króatíu.
Fjölskyldan í Króatíu. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Þetta er álíka óréttlát spurning og að þurfa að tilgreina uppáhaldsbarn. Borgir eru jafn misjafnar og þær eru margar og því ætla ég að leyfa mér að nefna þrjár ólíkar sem eiga sér allar sérstakan stað í hjarta mér:

Sevilla – borgin sem er einhvern veginn spænskari en spænskustu steríótýpurnar.

Dubrovnik – miðbærinn í miðaldaborginni og óviðjafnanlegt útsýni yfir eyjarnar fyrir utan.

Berlín  – nánast land í landi, svo ólík er hún öðrum þýskum borgum. Maður fær 20. aldar söguna beint í æð og svo er hún svo mátulega gróf og pönkuð.“

Fjölskyldan hefur ipplifað ýmislegt skemmtilegt á ferðalögum sínum.
Fjölskyldan hefur ipplifað ýmislegt skemmtilegt á ferðalögum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Ég trúi ekki á paradís á himnum en trúi á paradís á jörðu og hún er í Arnarfirði. Það er sama hvert er litið eða farið; þar fullkomnast allt það fallegasta á Íslandi.“

Besti maturinn á ferðalagi?

„Maturinn í Víetnam. Ég hef aldrei borðað jafn góðan, ferskan og upp til hópa hollan mat eins í Víetnam. Ekki skemmdi fyrir hvað hann var oft fallega framborinn, litskrúðugur og girnilegur á allan hátt.“

Maður og sonur Ingu Rósar að hjóla í Víetnam, rétt …
Maður og sonur Ingu Rósar að hjóla í Víetnam, rétt hjá Phong Nha þjóðgarðinum. Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Skortur á umhverfisvitund er það sem hefur valdið mér mestu hugarangri á ferðalögum. Að sjá fjölskyldur henda frauðkössum af kvöldmatnum beint í sjóinn við kóralrifin sem ég var að kafa við fyrr um daginn í Jórdaníu og fjölskyldur í Suðaustur-Asíu brenna öllu heimilissorpi með öllu því plasti sem því fylgir úti á götu í lok dags. Notkun einnota plastumbúða er víðast hvar ennþá gífurlega mikil og endurvinnsla engin. Við sem vitum betur þurfum að vera fyrirmyndir og kenna öðrum að gera betur.“

Inga Rós ásamt dætrum sínum. Inga Rós er dugleg að …
Inga Rós ásamt dætrum sínum. Inga Rós er dugleg að ferðast með fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Lesefni og góða skapið. Góð bók getur séð manni fyrir afþreyingu í mjög langan tíma og rétta hugarfarið tryggir að maður þolir betur áreitið sem óneitanlega fylgir því að vera fastur í flugvél í háloftunum með ólíku fólki í misjöfnu ástandi.“

Hvert dreymir þig um að fara?            

„Heimurinn er svo heillandi og svo margir spennandi staðir sem ég á eftir að upplifa. Marokkó hefur lengi verið ofarlega á lista og þangað ætlum við fjölskyldan í febrúar og hlökkum mikið til. Læt mig dreyma um Suður-Afríku og bakpokaferðalag um Suður-Ameríku.“

Inga Rós í Króatíu.
Inga Rós í Króatíu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert