Einar allt annað en sáttur: Algjört kjaftæði

Einar Jónsson fékk rautt spjald.
Einar Jónsson fékk rautt spjald. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Einar Jónsson þjálfari Fram var ósáttur eftir 27:23 tap liðsins gegn Haukum í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í handbolta í kvöld. Með sigrinum tryggðu Haukar sér sæti í úrslitum en Fram er úr leik.

„Við vorum að spila fína vörn lengst af en það var allt of lítil markvarsla í öllum þessum leikjum, eða þar til Ingunn kemur inn og ver ágæta bolta.

Markvarslan er hins vegar munurinn á þessum liðum að mínu mati. Svo eru þær með stóran leikmann eins og Elínu Klöru og eru með flott lið. Þær voru betri en við í þessu einvígi,“ sagði Einar við mbl.is eftir leik.

Einar fékk beint rautt spjald undir lokin fyrir að kasta leikhlésspjaldinu að eftirlitsborðinu. Einn eftirlitsmannanna sagði Einar hafa beðið um leikhlé, sem þjálfarinn er vægast sagt ósáttur með.

„Eftirlitsmaðurinn kallar leikhlé og ég var ekkert að taka leikhlé. Ég lyfti bara spjaldinu en var ekki einu sinni búinn að segja orðið leikhlé. Hann lýgur svo að fólki um að ég hafi sett spjaldið á borðið.

Ég stóð með leikhlésspjaldið meðfram síðunni og hann gat ekki séð sóma sinn í því að biðjast afsökunar og halda áfram með leikinn. Hann segir að ég hafi sett spjaldið á borðið, en það er algjört kjaftæði. Auðvitað átti ég ekki að bregðast svona við. Það var lélegt af minni hálfu,“ sagði Einar um atvikið.

Rauða spjaldið þýddi að Framliðið spilaði manni færri næstu tvær mínútur, sem reyndist afar dýrkeypt. „Þetta er rándýrt og ég veit þetta er lélegt af minni hálfu en ég þarf að taka ábyrgð á því á meðan það er enginn sem tekur neina ábyrgð á dómurum eða eftirlitsmönnum. Það er alveg sama hvað þeir gera mikið af mistökum, þeim er fokking skítsama,“ sagði hann ósáttur.

Fram endaði í öðru sæti í deildinni í vetur. Var því margt jákvætt í gangi í Úlfarsárdalnum, þótt liðið sé komið fyrr í sumarfrí en vonir stóðu til.

„Auðvitað ætluðum við okkur í úrslitaeinvígið á móti Val. Þetta er drullusúrt, því miður. Veturinn heilt yfir er búinn að vera frábær hjá stelpunum og vonandi lærum við af þessu og komum sterkari inn í næsta tímabil,“ sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert