„Stór mistök og stórt hneyksli“

Matthijs de Ligt í baráttu við Vinícius Júnior í gærkvöld.
Matthijs de Ligt í baráttu við Vinícius Júnior í gærkvöld. AFP/Óscar del Pozo

Knattspyrnumaðurinn Matthijs de Ligt, miðvörður Bayern München, segir aðstoðardómara í leik liðsins gegn Real Madríd hafa beðið sig afsökunar á að hafa lyft flagginu þegar Hollendingurinn virtist vera að jafna metin undir blálokin í gærkvöldi.

Real Madríd hafði betur, 2:1, og fer í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu með samanlögðum 4:3-sigri.

Hefði jöfnunarmark de Ligt fengið að standa eru miklar líkur á því að leikurinn hefði þá farið í framlengingu enda lítið eftir að uppbótartímanum. Atvikið sneri að því að Joshua Kimmich átti sendingu á Noussair Mazraoui sem var snarlega dæmdur rangstæður.

Aðstoðardómarinn fljótur á sér

Mazraoui skallaði boltann til hliðar á de Ligt sem skoraði en leikmenn Real Madríd voru hættir leik þar sem Szymon Marciniak dómari var búinn að flauta áður en Hollendingurinn kom boltanum í netið.

Mazraoui virtist ekki rangstæður í aðdragandanum og því útlit fyrir að aðstoðardómarinn hafi hlaupið á sig, þar sem með tilkomu VAR hefur það verið til siðs að leyfa sóknum að klárast ef ekki er augljóst hvort sé um rangstöðu að ræða eður ei.

„Ef þetta er rangstaða er þetta rangstaða en við styðjumst við reglur í knattspyrnu sem kveða um að ef rangstaðan er ekki augjós, sem þetta var ekki, þá verður að halda leik áfram.

Þegar komið er á síðustu mínútu og þú blæst í flautuna með þessum hætti finnst mér það vera stór mistök og stórt hneyksli,“ sagði de Ligt í samtali við beIN Sports eftir leik.

„Ég gerði mistök“

Þar sem búið var að flauta áður en hann skoraði gat VAR ekki aðhafst neitt frekar.

„Línuvörðurinn sagði við mig: „Mér þykir þetta leitt, ég gerði mistök.“ Ég fæ ekkert fyrir það. Þegar allt kemur til alls er ég ekki sú tegund af manneskju sem kennir dómaranum um sigur eða tap.

Madríd verðskuldar sigurinn því þeir unnu 2:1 en ef þetta er regla er þetta regla. Það er það eina sem ég get sagt um þetta,“ bætti de Ligt við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert