Skiptir um skoðun og á leið til Englands

Victor Osimhen hefur skorað 41 mark í ítölsku A-deildinni undanfarin …
Victor Osimhen hefur skorað 41 mark í ítölsku A-deildinni undanfarin tvö ár. AFP/Lluis Gene

Nígeríski knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen er að líkindum á leið í ensku úrvalsdeildina í sumar, frekar en  til Real Madrid eða París SG.

Legið hefur fyrir í allan vetur að Osimhen muni yfirgefa Napoli að þessu tímabili loknu. „Við vissum strax í sumar að hann myndi fara til Real Madríd, París SG eða Englands,“ sagði forseti Napoli, Aurelio De Laurentiis, í janúar.

Ítalski knattspyrnublaðamaðurinn Gianluca di Marzio segir í dag að Osimshen vilji ekki fara til Parísar og hans markmið sé að fara til einhvers af sterkustu liðunum i ensku úrvalsdeildinni. Þar liggi fyrir að Arsenal, Chelsea og Manchester United séu áhugasöm um að fá hann í sínar raðir.

Osimhen er þriðji markahæsti leikmaður ítölsku A-deildarinnar í vetur með 15 mörk fyrir Napoli, einu meira en Albert Guðmundsson hefur skorað fyrir Genoa. Í fyrra  varð hann markakóngur deildarinnar með 26 mörk þegar Napoli varð ítalskur meistari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert