Við þurfum að svara fyrir okkur

Fylkiskonur voru í vandræðum gegn Tindastóli á Akureyri í dag.
Fylkiskonur voru í vandræðum gegn Tindastóli á Akureyri í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Fylkis í Bestu-deild kvenna í fótbolta, var með sitt lið á Akureyri í dag.

Fylkir mætti þar liði Tindastóls á KA-vellinum en leikurinn var færður þangað þar sem heimavöllur Tindastóls varð fyrir skemmdum um daginn í miklum vatnselg.

Fylkiskonur þurftu að kyngja 3:0-tapi í leik sem var í höndum heimakvenna nánast frá upphafi. Gunnar Magnús hafði þetta að segja í leikslok:

„Þetta var bara lélegt. Tindastóll var betra liðið í dag. Þær voru harðari í návígjunum og við gáfum frekar ódýr mörk. Allavega gáfum við þeim boltann á hættulegum stöðum og þær nýttu sér það. Mér fannst við byrja leikinn mjög vel en mörk breyta leikjum og eftir fyrsta mark Stólanna var þetta bara erfitt hjá okkur. Tindastólsliðið er mjög þétt og við áttum erfitt með að finna einhver alvöru færi.“

Staðan var lengi vel 2:0 og þið sóttuð mikið í ykkur veðrið seinni hluta síðari hálfleiks. Mark frá ykkur hefði getað hleypt þessu upp.

„Já, það hefði getað breytt miklu og komið skjálfta í Stólana og meiri kraft í okkur. Við samt náðum ekki að skapa okkur nein afgerandi færi. Það gerist sjaldan að við skorum ekki.“

Byrjun ykkar á mótinu hefur verið nokkuð góð, bara vel ásættanleg. Þetta var fyrsta tapið ykkar.

„Við látum þetta ekkert slá okkur út af laginu. Næsti leikur er gegn Blikum og það verður gaman að glíma við geysisterkt lið þeirra. Það verður líka gaman að sjá hvernig lið mitt mun bregðast við þessum leik. Við þurfum að svara fyrir okkur eftir slæma frammistöðu í dag“ sagði Gunnar Magnús að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert