Vorum ekki að fara að spila neinn fótbolta

Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val í síðasta mánuði.
Fanndís Friðriksdóttir í leik með Val í síðasta mánuði. mbl.is/Óttar Geirsson

„Við ætluðum að koma hingað til Keflavíkur og vinna en það er alls ekki gefins,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals, sem skoraði fyrra mark síns liðs í 2:1 útisigri gegn Keflavík í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Ég man ekki eftir að hafa komið hingað og unnið auðveldan sigur, það hefur ekki gerst að mig minnir.

Völlurinn hefur sín áhrif á leikinn og þetta verður bara ljótur fótboltaleikur og það þarf að koma hingað með hörku, vilja og dugnað,“ bætti Fanndís við í samtali við mbl.is.

Íslandsmeistararnir í Val byrjuðu leikinn betur en svo vann botnlið Keflavíkur sig meira inn í hann, átti frábæra spilkafla, komst yfir og leiddi í hálfleik.

Valur náði svo að koma sér meira inn leikinn í seinni hálfleik og sneri taflinu við á fimm mínútna kafla þegar liðið jafnaði með marki Fanndísar á 55. mínútu og á 60. mínútu skoraði Nadía Atladóttir sigurmark Vals.

„Í fyrri hálfleik fannst okkur við vera með leikinn í okkar höndum en það vantaði herslumuninn. Við fórum svo inn í hálfleik og þá kom ekkert annað til greina en að setja í sjötta gír og sýna meiri baráttu.

Við vissum að við vorum ekki að fara að spila neinn fótbolta hérna. Fyrsta markið okkar var ljótt og það telur jafn mikið og hin mörkin.

Annað markið kom eftir glæsilegt spil og Nadía kláraði mjög vel. Við erum mjög sáttar að keyra heim með þrjú stig héðan,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert