Allt öðruvísi umhverfi hjá Fram

Kyle McLagan hefur farið mjög vel af stað með Fram …
Kyle McLagan hefur farið mjög vel af stað með Fram í Bestu deildinni í vor. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Mér líður mjög vel og það er gott að vera kominn aftur á völlinn,“ sagði Kyle McLagan, varnarmaður Fram og leikmaður aprílmánaðar hjá Morgunblaðinu.

„Ég nýt þess að spila fótbolta á nýjan leik og ánægjan er mikil eftir að hafa verið ansi lengi frá vegna meiðsla. Það eru mjög spennandi hlutir í gangi hjá Fram þessa dagana og umhverfið er allt öðruvísi en þegar ég lék með liðinu seinnipart tímabilsins 2020 og svo tímabilið 2021.

Rúnar Kristinsson hefur líka komið mjög vel inn í þetta og hann kemur með ákveðinn hugsunarhátt og ákveða atvinnumennsku inn í þetta. Eins og þeir sem hafa fylgst með fyrstu leikjum okkar í sumar hafa séð þá erum við lið sem verður mjög erfitt að eiga við í sumar og ég hlakka til að halda áfram á sömu braut,“ sagði varnarmaðurinn.

Setti hausinn undir sig

McLagan gekk til liðs við Framara frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík fyrir yfirstandandi tímabil eftir tvö tímabil í herbúðum liðsins en hann sleit krossband fyrir síðasta keppnistímabil og missti því af öllu tímabilinu.

„Þetta var mjög erfitt ár fyrir mig persónulega, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Lengi vel hugsaði ég af hverju þetta hefði komið fyrir mig og hvers vegna. Að endingu gat ég
ekkert annað gert en að sætta mig við orðinn hlut og þá kom ekkert annað til greina en að setja hausinn undir sig og setja allt á fullt í endurhæfinguna og að ná fullum bata.

Sumarið í Víkinni var líka mjög spennandi og skemmtilegt sem gerði þetta kannski ennþá meira svekkjandi. Ég endaði á að vera stuðningsmaður númer eitt, frekar en leikmaður, og þetta var því allt öðruvísi sumar fyrir mig en ég á að venjast. Ég lagði hart að mér til þess að komast á þann stað sem ég er á í dag og ég lærði á sama tíma mikið inn á sjálfan mig. Ég kem sterkari út úr þessu öllu.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag og þar er birt úrvalslið blaðsins í Bestu deild karla í aprílmánuði

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert