Blikur á lofti í rekstri ÁTVR

Ívar rifjar upp að nú séu næstum fjögur ár liðin …
Ívar rifjar upp að nú séu næstum fjögur ár liðin frá því ÁTVR kærði ólöglega netsölu áfengis til lögreglu. mbl.is/Sigurður Bogi

Sala á áfengi dróst saman um 2% í lítrum talið í Vínbúðunum í fyrra. Viðskiptavinum fjölgaði lítillega milli ára og í fyrra voru þeir 5,3 milljónir talsins. Þetta kemur fram í nýútkominni ársskýrslu ÁTVR fyrir árið 2023.

Þar kemur fram að hagnaður ÁTVR var 779 milljónir króna en hann var 877 milljónir króna árið 2022. Rekstrartekjur ársins voru 42.281 milljón króna. Rekstrargjöld námu 41.767 milljónum króna. Tekjur af sölu áfengis voru 34.382 milljónir króna án vsk. og jukust um 4,2% milli ára. Tekjur af sölu tóbaks voru 7.978 milljónir króna án vsk. og minnkuðu um tæplega 2% á milli ára.

Forstjórinn Ívar J. Arndal segir að blikur séu á lofti í rekstri ÁTVR. Kennir hann ólöglegri netsölu áfengis og samdrætti í tóbakssölu þar um. Ívar vísar til þess að í ríkisreikningi megi sjá að hlutfall ÁTVR af greiddum áfengisgjöldum hafi lækkað um 5-6% á síðustu árum.

„Ólöglegrar netsölu“

„Rökrétt er að álykta að þetta sé að mestu vegna ólöglegrar netsölu áfengis. Afleiðingar þessa eru að arðgreiðsla ÁTVR í ríkissjóð lækkar um 400 milljónir króna. Ef ekkert verður að gert varðandi netsöluna er líklegt að ÁTVR verði að skerða þjónustu verulega á næstu árum svo ekki komi til hallareksturs,“ segir í pistli hans í ársskýrslunni.

Ívar rifjar upp að nú séu næstum fjögur ár liðin frá því ÁTVR kærði ólöglega netsölu áfengis til lögreglu. Hann hjólar í lögregluna og segir furðu sæta að ekkert hafi gerst á þessum tíma. „Það er eftirtektarverð stjórnsýsla að upplýsa kæranda ekkert um stöðu mála eftir fjögurra ára rannsókn. Ekki er hægt að trúa öðru en að lögreglan komist að niðurstöðu í kærumálinu á næstu vikum. Annað er óásættanlegt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert