Gert að greiða 64 milljónir króna í sekt

Þórkatla og Sigurjón áfrýjuðu dómi héraðsdóms á sínum tíma og …
Þórkatla og Sigurjón áfrýjuðu dómi héraðsdóms á sínum tíma og hefur Þórkatla nú verið sýknuð í Landsrétti. Landsréttur staðfesti þó dóm héraðsdóms yfir Sigurjóni. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur staðfesti fyrr í dag dóm héraðsdóms yfir Sigurjóni G. Halldórssyni og hlýtur hann 15 mánaða skilorðsbundinn dóm og er gert að greiða í sekt 64 milljónir króna.

Var hann einn af af fimm aðilum sem sakfelldir voru í héraði á síðasta ári fyrir stórfelld skatta­laga­brot og brot á bók­halds­lög­um. Voru þetta fram­kvæmda­stjórar og stjórn­ar­menn hjá fyrirtækjunum Brotafl, Kraftbindingum og Starfsmenn ehf.

Þórkatla Ragnarsdóttir var ein þeirra en hún og Sigurjón áfrýjuðu þeim dómi til Landsréttar. Landsréttur sýknaði Þórkötlu fyrr í dag af öllum sakargiftum en hún hafði verið dæmd í héraði í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða 64 milljónir króna í sekt.

Sigurjón þarf að greiða 64 milljónir króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna, annars sætir hann fangelsisvist í 360 daga.

Málið byggði einkum á Sigurjóni og Þórkötlu

Grund­völl­ur kröfu­gerðar­inn­ar í saka­mál­inu byggði einkum á þeirri for­sendu að stefndu, einkum Sig­ur­jón og Þórkatla, hefðu hlutast til um að ann­ar maður gæfi út til­hæfu­lausa sölu­reikn­inga í nafni fjög­urra einka­hluta­fé­laga á hend­ur Brotafli.

Seg­ir í dómi héraðsdóms á sínum tíma að greiðslurn­ar hafi í raun verið sýnd­ar­gern­ing­ur. Um er að ræða reikn­inga sem voru gefn­ir út á milli 2012 til og með 2015.

Fimm voru sakfelldir 

Í fe­brú­ar á síðasta ári dæmdi Héraðsdóm­ur Reykja­ness fimm manns frá þremur mismundandi fyrirtækjum í skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir stór­felld skatta­laga­brot, brot á lög­um um virðis­auka­skatt og brot á bók­halds­lög­um. Þrír hlutu þá 18 mánaða skil­orðsbund­inn dóm, þeir Kon­ráð Þór Lárus­son, Kristján Þóris­son og Ró­bert Páll Lárus­son, og tveir 15 mánaða dóm skil­orðsbundið, þau Sig­ur­jón G. Hall­dórs­son og Þórkatla Ragn­ars­dótt­ir.

Eins og fyrr segir þá hefur Landsréttur hnekkt dómi héraðsdóms gegn Þórkötlu.

Sam­tals var fólk­inu gert að greiða rúm­ar 450 millj­ón­ir kr. í sekt til rík­is­sjóðs, en nú er búið að draga frá 64 milljónir króna af þeirri upphæð þar sem Þórkatla hefur verið sýknuð.

Sagði héraðsdóm­ur á þeim tíma að brot allra ákærðu hefðu tal­ist stór­felld auk þess sem um sam­verknað hefði verið að ræða.

Uppfært klukkan 7.49

Upphaflega sagði í fréttinni að allir þeir sakfelldu í dómi héraðsdóms væru stjórnendur hjá Brotafli, það var ekki rétt. Er brotin, sem mennirnir voru sakfelldir fyrir, voru framin var Kon­ráð Þór Lárus­son stjórn­ar­maður í Kraft­bind­ing­um, sem nú heit­ir Summit ehf., og Ró­bert Páll Lárus­son var fram­kvæmda­stjóri Kraft­bind­inga. Kristján Þóris­son var fram­kvæmda­stjóri Starfs­manna ehf.

Sig­ur­jón G. Hall­dórs­son var annar eigandi Brotafls og Þórkatla Ragn­ars­dótt­ir var einnig hjá Brotafli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert