c

Pistlar:

8. desember 2022 kl. 9:43

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Vantar langtímastefnu

Fræðimenn eru heilt yfir sammála um að fyrirtæki þurfi sífellt að taka breytingum annars er hætt við að þau verði undir í samkeppni. Árangur fyrirtækja byggir einnig á hæfni stjórnenda í að horfa til framtíðar, marka sér stefnu og hvetja starfsmenn til að ná settu marki. Það eru því fyrirtæki sem marka sér stefnu til lengri tíma og skynja mikilvægi hennar og endurskoða hana reglulega sem ná framúrskarandi árangri.

digital-strategy-strategic-planning-implementation-management-marketingÞví hefur verið haldið fram að 75% af markaðsvirði fyrirtækis geti tengist duldum eignum s.s. viðskiptasambönd, samningar, vörumerki, orðspor, og hæfninni til að stjórna í síbreytilegum heimi. Vegna þessa er enn mikilvægara í dag en áður að ytra umhverfi starfsgreina sé ekki háð tilviljunum eða pólitískum geðþótta. Heldur stýrist af stefnumótun til langs tíma. 

Það er ávallt þannig þegar verið er að nýta auðlind sem er takmörkuð þá eru nokkuð skiptar skoðanir á því hvernig best er með farið. Það er í sjálfu sér kemur ekki á óvart. Stóra spurningin þegar unnið er að stefnumótun í sjávarútvegi hlýtur að vera hvernig förum við að því að skapa sem mest verðmæti úr takmarkaðri auðlind??

Í sáttmála um ríkisstjórnarinnar frá 28. nóvember 2021 kemur eftirfarandi fram í kafla um sjávarútvegsmál: 

„Skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.“

Og áfram er haldið

„Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“

Þessi texti vekur nokkra furðu, markmið þessarar vinnu virðist ekki eiga að vera langtíma stefnumörkun þjóðinni til heilla, heldur að meta stöðuna eins og hún er eða leggja mat á aðgerðir sem þegar hafa verið framkvæmdar.

Þetta er áhugavert í því samhengi að einungis 6 mánuðum áður hafði nefnd undir forystu Sveins Agnarssonar, prófessors skilað af sér umfangsmikilli skýrslu til Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis Íslands sem nefndist „Staða og horfur íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi

Þar er reynt að varpa ljósi á hvar við erum stödd. Það er sláandi að í þeirri skýrslu er ekki minnst einu orði á langtíma stefnumótun í sjávarútvegi. Líkast til vegna þess að sú stefna hefur ekki verið sett. 

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að langtíma stefnumörkun í kringum þessa auðlind er ekki til og hefur gleymst í því argaþrasi sem verið hefur oft á tíðum í kringum fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er vissulega sannleikskorn í tilvitnuninni „Ef þú veist ekki hvert þú stefnir, þá endar þú örugglega einhvers staðar annars staðar*.“ Þetta ættu fyrirtækin og stjórnvöld að hafa í huga. 

Það eru margar krefjandi spurningar sem við ættum að vera að spyrja okkur.  Spurningar eins og hvort hámarka skuli gjaldtöku að auðlindinni? Eða hámarka útflutningsvirði þeirra afurða sem auðlindin gefur? Hvort skilar til lengri tíma meiri ávinningi? Eigum við að selja afurðir til áframvinnslu og verðmætasköpunar erlendis eða eigum við að stefna að fullvinnslu afurða hér heima með tilfallandi verðmætaaukningu? Hvernig getum aukið enn frekar verðmæti aukaafurða? Þetta eru brennandi spurningar, svör við þeim munu hafa áhrif á lífsafkomu okkar og barna okkar til langrar framtíðar. 

*Laurence J. Peter

Mynd: clipart-library.com

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur