c

Pistlar:

21. september 2021 kl. 15:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kosið um hver leiðir verðmætasköpun

Kosningar til Alþingis eru sannarlega mikilvægar en kjósendur eru að velja þá til valda sem munu hafa áhrif á framvindu samfélagsins og skapa leikreglurnar. En stundum er eins og við séum of mikið að horfa á leikreglurnar en ekki leikinn sjálfan. Hann gengur nefnilega út á þau þau þekktu sannindi að það er raunhagkerfið sem býr til þau verðmæti sem skipta máli, verðmæti sem útvega okkur mikilvægan gjaldeyri og eru undirstaða hina sameiginlegu verka sem ríkisvaldið tekur að sér. Án þess að fólk gangi til starfa sinna daglega og reyni að skapa og bæta hag sinn um leið gerist fátt.

Það er ágætlega minnt á þetta í fróðlegri frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag en þar er fjallað um áhugaverða breytingu hjá iðnaðinum í landinu. Af því tilefni segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: „Fyrsti áratugur aldarinnar var áratugur fjármálageirans, annar áratugurinn var áratugur ferðaþjónustunnar. Þriðji áratugurinn getur svo sannarlega verið áratugur hugverkaiðnaðar og nýsköpunar. Við erum í dauðafæri en það er háð því að réttar ákvarðanir verði teknar á næstu vikum og mánuðum.“

Sannarlega áhugaverð sýn á verðmætasköpun í samfélaginu og hvernig það getur tekið breytingum. Þegar landsframleiðsla er metin eru að sjálfsögðu ótal þættir sem koma með framlag til hennar en útflutningsgreinar skipta sköpum þegar kemur að lífsgæðum.kerecis

Breytingin 2013

Fréttin í Fréttablaðinu gengur út á að að benda á að útflutningstekjur vegna fyrirtækja í hugverkaiðnaði hafi numið 160 milljörðum króna í fyrra, sem er orðið 16 prósent af öllum útflutningi frá Íslandi og tvöföldun frá árinu 2013. Frá árinu 2013, hvað gerðist þá? - Jú ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar tók til starfa og lagði höfuðáherslu á að endurræsa hagkerfið, samfara leiðréttingu til þeirra sem orðið höfðu fyrir órétti í bankahruninu en síðast en ekki síst, að gera upp við kröfuhafa hrundins og skapa stöðugleika á ný án fjármagnshafta.

En víkjum aftur að breytingunum innan hugverkaiðnaðarins, sem allt eins má kalla iðnað því ekki verður séð annað en að þau fyrirtæki sem tínd eru til í greininni séu okkar þekktustu iðnfyrirtæki, sem auðvitað byggja á tækniþekkingu og hugverkalausnum. En í fréttinni er bent á að fyrirtæki sem fengu endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarverkefna fóru úr rúmlega 200 í rúmlega 300 á milli áranna 2019 og 2020. Það er auðvitað eftirtektarverð aukning.

Haft er eftir Sigurði Hannessyni að ef rétt er haldið á spöðunum geti hugverkaiðnaðurinn orðið ein stærsta útflutningsgreinin í íslensku hagkerfi. „Þetta sýnir svart á hvítu að jarðvegurinn er frjór. Það er mikil gróska í gangi. Það eru fleiri og fleiri fyrirtæki sem eru að taka verulega vaxtarkippi, eins og Controlant, Nox Medical og Kerecis. Hugverkaiðnaðurinn hefur alla burði til að vera langöflugasta útflutningsgreinin á Íslandi ef rétt er á málum haldið. Hann getur orðið mikilvægari en ferðaiðnaðurinn og orkuiðnaðurinn og aðrar greinar,“ segir Sigurður.Controlant-Family-600x600

Nýsköpun og sjávarútvegur

Hér í pistlum hefur margoft verið bent á áhugaverð fyrirtæki, mörg þeirra hefjast uppúr sjávarútvegnum og njóta tengsla og samskipta við hann enda hefur sjávarútvegurinn stutt mjög við nýsköpun. Þess njóta fyrirtæki eins og Marel, Kerecis og Valka svo fáein séu nefnd. Einnig mætti nefna Hampiðjuna og Skaginn3X sem nú hefur verið selt til erlendra aðila en öll eiga þau áhugaverða sögu.

Á árum áður hafi verið talið að á hverjum áratug myndi eitt fyrirtæki ná verulegri stærð eins og Össur, Marel og jafnvel CCP en nú sé slíkum fyrirtækjum að fjölga. Sigurður bendir réttilega á að það getur dregið verulega úr sveiflum í hagkerfinu að skapa öflugan innlendan iðnað, hvort sem hann fellur beint undir útflutning eða fyrst og fremst innlenda starfsemi. Undir það skal tekið hér.