c

Pistlar:

5. maí 2021 kl. 15:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað gerir Seðlabankinn 19. maí?

Næsta stýrivaxtaákvörðun verður eftir tvær vikur (19. maí) og augljóslega bíða margir eftir að sjá hvaða leið peningastefnunefnd Seðlabankans velur. Fljótt á litið virðast markaðsaðilar tvístígandi - að öllu jöfnu ætti Seðlabankinn að stíga inn og hækka vexti en hann virðist enn ætla að láta reyna á önnur úrræði sem hann hefur til að hafa áhrif á fasteignamarkaðinn enda spurning hvað knýr eftirspurn þar áfram. Við blasir að horfa til skorts á lóðum og þá tilhneigingu verktaka að færa sér stöðuna í nyt með óhóflegri verðlagningu, líklega knýi það hækkun fasteignaverðs áfram. Því er það skortur og vaxtalækkun, með tilheyrandi hækkun eignaverðs, sem stýrir fasteignamarkaði - og að hluta til hlutabréfamarkaði.

En augljóslega er Seðlabankanum verulegur vandi á höndum. Margir hallast að því að bankanum sé ekki stætt á öðru en að sýna tennurnar og hækka vexti um 25 punkta, jafnvel 50 punkta. Hafa verður í huga að nú er búið að fækka vaxtaákvörðunardögum bankans úr átta í sex yfir árið - þannig að næsti fundur er ekki boðaður fyrr en 25. ágúst, réttum mánuði fyrir kosningar. Því velta menn fyrir sér hvort bankinn vilji bíða svo lengi með að grípa inní ástand sem augljóslega myndi kalla á vaxtahækkun í eðlilegu árferði eins og birtist á öllum sviðum vaxtaferilsins. Nú þegar eru framvirkir vextir þokkalega háir þar sem vaxtakúrfur eru báðar óvenju brattar. Óverðtryggðir vextir hafa eftir öllum ferlinum hækkað um 20 til 40 punkta frá miðri síðustu viku. Ákveði Seðlabankinn ekki að hækka vexti núna í maí er óhjákvæmilegt að hann grípi til annarra aðgerða meðal annars til að hemja útlán til húsnæðiskaupa. Margir eru á því að sá slaki sem bankinn bjó til til að auka útlán í þeim tilgangi að vinna gegn atvinnuleysi hafi ekki virkað. Það hafi allt farið í að lána til húsnæðiskaupa og knúið þannig áfram þenslu á íbúðamarkaði.sedla

Launahækkanir munu hafa afleiðingar

Augljóslega er íslenska hagkerfið í ölduróti núna. Sjá má merki um verðbólgu í öllum hornum og sumir eru uggandi vegna komandi viðskiptahalla þegar Íslendingar fara á ný að streyma til útlanda. En menn á markaði segja þegar spurt er um til hvaða hagstærða eigi helst að horfa: „Laun, laun og aftur laun!“ Breytingarnar eru í raun fordæmalausar. Laun starfsmanna hins opinbera hafa hækkað rúmlega tvöfalt meira á einu ári en laun launþega á almennum vinnumarkaði. Kostnaður við síðustu samninga starfsfólks ríkis og sveitarfélaga er enn ekki að fullu kominn fram, en nú er ljóst að hann er langtum meiri en látið var skína í þegar þeir voru gerðir. Hækkun launakostnaðar hjá sveitarfélögum segir sitt en þar má sjá hátt í 20% hækkun frá 2019 til 2020. Og svo kemur annar kúfur núna með styttingu vinnuviku. Ein viðmælandi var ekki að skafa af því: „Þetta er sturlað og engin innistæða fyrir þessu.“ Íslandsbanki spáir 5,8% launahækkunum í ár og Arion banki 7,2%. Jafnvel þó launavísitalan verði óbreytt frá og með mars síðastliðnum rætast þær spár nokkurn veginn enda myndi það hafa í för með sér sem svarar 7% hækkun. Slíkar launahækkanir eru fordæmalausar og ekkert hagkerfi getur tekist á við það í gegnum framleiðniaukningu. Verðbólga er óhjákvæmileg.

Seðlabankinn einn við hagstjórn

Allir á markaði eru sammála um að Seðlabankinn sé einn við hagstjórn um þessar mundir og verður væntanlega einn á vaktinni fram yfir kosningar enda er sitjandi ríkisstjórn í aðstöðu til að skrifa kosningavíxla sína á kórónuveirufaraldurinn. Þar að auki virðist verkalýðshreyfingin/ASÍ komið í kosningaham eins og slagorðið „það er víst nóg til“ (í vösum skattgreiðenda) bendir til. Svo virðist sem verkalýðshreyfingin telji lítið fengið með stöðugleika og sumir gætu haldið að hún ætti við þann freistnivanda að stríða, að sækjast í átök vegna þess að háar launahækkanir er hægt að eigna sér á meðan afleiðingin, verðbólga, sé annarra að eiga við.

Sumir stjórnmálaflokkar veigra sér við að ræða raunverulegar ástæður verðlagsóstöðugleika og versnandi verðbólguhorfur heldur kenna krónunni og fullveldinu um með vísun í að ESB-aðild lagi allt. En þetta er ekki það sem fyrirtækjastjórnendur í landinu upplifa. Þeir gagnrýna fyrst og fremst óraunhæfar launahækkanir. Hvernig ætla stjórnmálamenn annars að fara að því að lofa stöðugleika innan evrunnar þegar þeir geta ekki einu sinni staðið að stöðugleika innan núverandi gengissvæðis?